Innlent

Handtekinn á Seltjarnarnesi grunaður um fjölda afbrota

Kjartan Kjartansson skrifar
Í mörg horn var að líta fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.
Í mörg horn var að líta fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Einn þriggja ungra karlmanna sem voru handteknir á Seltjarnarnesi í nótt er grunaður um hótanir, líkamsárás, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar lögreglu í nótt.

Mennirnir þrír voru handteknir rétt fyrir klukkan þrjú í nótt. Tveir félagar þess sem grunaður er um alvarlegustu brotin voru látnir lausir eftir skýrslutöku en þeir eru grunaðir um vörslu fíkniefna, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá handtóku lögreglumenn karlmann sem veittist að fólki og ógnaði fyrir utan veitingahús í hverfi 105 rétt fyrir klukkan hálf tólf í gærkvöldi. Hann er sagður hafa verið í annarlegu ástandi.

Dyraverðir höfðu náð tökum á manninum þegar lögreglu var tilkynnt um athæfi hans. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð en honum svo sleppt að loknu viðtali.

Nokkuð var um ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Í Ártúnsbrekku var ökumaður stöðvaður á rúmlega hundrað kílómetra hraða. Hann hafði neytt áfengis fyrir aksturinn en reyndist undir refsimarka. Ökuréttindi hans voru útrunninn og stöðvuðu lögreglumenn ferð hans og lögðu hald á kveikjuláslykil bílsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×