Erlent

Skæð Covid-bylgja leikur óbólu­­setta Búlgara grátt

Þorgils Jónsson skrifar
Skæð bylgja af COVID-19 gengur nú yfir Búlgaríu. Þrátt fyrir það gengur illa að fá almenning til að láta bólusetja sig gegn vágestinum.  
Skæð bylgja af COVID-19 gengur nú yfir Búlgaríu. Þrátt fyrir það gengur illa að fá almenning til að láta bólusetja sig gegn vágestinum.  

Neyðarástand vofir yfir heilbrigðiskerfi Búlgaríu þar sem skæð COVID-19 bylgja gengur nú yfir. Bólusetningar hafa gengið afar hægt í landinu þar sem einungis um fimmtungur landsmanna, sem telja 7 milljónir, hafa fengið sprautu og almennra efasemda virðist gæta.

Alls hafa 19.000 Búlgarar látist af völdum COVID-19 frá upphafi faraldursins, sem stendur aðeins Tékklandi og Ungverjalandi að baki hvað varðar dánartíðni ESB-landa. Síðustu viku hafa 41 látist á degi hverjum að meðaltali og gjörgæsludeildir sjúkrahúsa eru þéttsetnar af COVID-sjúklingum. Heilbrigðiskerfið þar í landi er almennt ekki burðugt, en er nú að nálgast þolmörk.

Búlgaría hefur aðgang að öllum helstu bóluefnunum sem samþykkt hafa verið af ESB, og bjóða víða uppá bólusetningar, en illa hefur gengið að sannfæra almenning um að slá til. Bólusetningarhlutfallið er sem fyrr segir 20%, sem er það lægsta af öllum ESB-ríkjum þar sem meðaltalið er 59%.

Fréttastofa AP hefur eftir sérfræðing í lýðheilsumálum þar í landi að margt liggi að baki efasemdum almennings, meðal annars lítið traust til opinberra stofnana, pólitískur óstöðugleiki, falsfréttir og misheppnuð bólusetningarherferð stjórnvalda.

Dræmt gengi í bólusetningum í Búlgariu er rakið til almennra efasemda landsmanna. Starfsfólk í veitingaiðnaði mótmælti hertum aðgerðum á dögunum.

Vegna ástandsins hertu stjórnvöld talsvert á sóttvarnaraðgerðum þar sem opnunartímar hafa verið styttir á veitingahúsum, næturklúbbum lokað og gestafjöldi leikhúsa og kvikmyndahúsa takmarkaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×