Innlent

Hótaði að skjóta flóð­ljósin á Laugar­dals­velli niður

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Flóðljósin á Laugardalsvelli voru í gangi í gærkvöldi vegna æfingar karlalandsliðsins.
Flóðljósin á Laugardalsvelli voru í gangi í gærkvöldi vegna æfingar karlalandsliðsins. Vísir/Vésteinn

Maðurinn sem hafði í hótunum við starfsfólk Knattspyrnusambands Íslands í höfuðstöðvum sambandsins fyrr í dag hótaði að nota skotvopn til þess að skjóta flóðljós Laugardalsvallar niður.

Lögregla var kölluð til vegna málsins en maðurinn var farinn af vettvangi þegar hana bar að garði og fannst ekki.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefni dagsins. Fyrr í dag var greint frá því að maðurinn, sem býr í næsta nágrenni við Laugardalsvöll, hafi verið ósáttur við KSÍ vegna flóðlýsingar á vellinum, sem hafi lýst inn á heimili hans.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafði maðurinn líka í hótunum vegna málanna tengdum KSÍ sem hafa verið til umræðu og umfjöllunar undanfarna daga: afsögn stjórnar KSÍ vegna ofbeldismála af hálfu leikmanna karlalandsliðsins í knattspyrnu, sem stjórnin hafa vitað af, þvert á yfirlýsingar þáverandi formannsins Guðna Bergssonar í fjölmiðlum í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×