Innlent

Opna sér­stakt lið­skipta­setur á Akra­nesi

Atli Ísleifsson skrifar
Liðskiptasetur mun opna innan Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi í mars á næsta ári.
Liðskiptasetur mun opna innan Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi í mars á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Til stendur að opna sérstakt liðskiptasetur, skurðstofu þar sem eingöngu er sinnt liðskiptaaðgerðum, við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Er reiknað að með opnuninni muni liðskiptaaðgerðum hér landi fjölga umtalsvert.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að gert sé ráð fyrir að liðskiptasetrið taki að fullu til starfa í mars á næsta ári.

„Stofnunin verður þá með getu til að framkvæma um 430 aðgerðir á ári sem er rúmlega tvöföldun á núverandi afkastagetu. Stofnun setursins er liður í víðtækari áætlun sem unnið hefur verið að síðustu misseri í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra, til að mæta vaxandi þörf fyrir þessar aðgerðir, stytta bið fólks í brýnni þörf, bæta verkferla og samræma þjónustuna.

300 aðgerðir til viðbótar í sérstöku átaksverkefni

Að jafnaði eru gerðar rúmlega 1.500 liðskiptaaðgerðir á ári við Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri og HVE. Með tilkomu liðskiptasetursins er stefnt að varanlegri árlegri fjölgun sem nemur um 260 aðgerðum á ári. Vegna COVID-19 hafa aðgerðir síðustu misseri verið nokkru færri en að jafnaði. Því hefur verið ákveðið að ráðast í sérstakt átak til 12 mánaða til að fjölga aðgerðum enn frekar tímabundið og stytta biðlista. Í því átaki er gert ráð fyrir að gerðar verði um 300 liðskiptaaðgerðir sem koma til viðbótar þeirri fjölgun sem leiðir af opnun liðskiptasetursins á Akranesi,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×