Innlent

Al­þingi kemur saman á ný eftir páska­frí

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrsti þingfundur eftir páskafrí er á dagskrá klukkan 15 í dag.
Fyrsti þingfundur eftir páskafrí er á dagskrá klukkan 15 í dag. Vísir/Anton Brink

Alþingi kemur aftur saman í dag eftir páskafrí en síðasta þingfundur fór fram 10. apríl síðastliðinn. Samkvæmt dagskrá hefst þingfundur klukkan 15 og eru óundirbúnar fyrirspurnir fyrsta mál á dagskrá.

Á vef Alþingis má sjá að fundað verði í þremur fastanefndum – fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd – fyrir hádegi. Klukkan 11 mun Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, svo funda með formönnum þingflokka og klukkan 11:45 kemur forsætisnefnd saman til fundar. Þingfundur verður svo settur klukkan 15.

Þeir ráðherrar sem verða til svara í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag eru Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, Alma Möller heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra.

Á dagskrá þingfundar er meðal annars kosning í stjórn Ríkisútvarpsins til eins árs.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið í morgun að ríkisstjórnin vinni áfram eftir þingmálaskrá sinni og að ekki sé gert ráð fyrir að fresta þurfi afgreiðslu neinna frumvarpa fyrir þinglok í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×