Fótbolti

Kristian­stad hafði betur í Ís­lendinga­slagnum í Meistara­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alice Nilsson skoraði eina mark leiksins.
Alice Nilsson skoraði eina mark leiksins. Kristianstad

Íslendingalið Kristianstad tók á móti Bröndby í forkeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu í dag. Fór það svo að Kristianstad vann 1-0 og fer áfram í næstu umferð forkeppninnar á meðan Bröndby er úr leik. Þrír Íslendingar voru í byrjunarliði liðanna í dag.

Sif Atladóttir hóf leikinn í hjarta varnar Kristianstad í 3-5-2 leikkerfi heimakvenna á meðan Sveindís Jane Jónsdóttir hóf leikinn upp á topp. Í liði Bröndby var Barbára Sól Gísladóttir í stöðu hægri bakvarðar í hefðbundnu 4-2-3-1 leikkerfi gestanna.

Alice Nilsson kom Kristianstad yfir eftir hornspyrnu þegar rúmlega hálftími var liðinn af leiknum. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og í raun leiksins í heild sinni. Liðin voru svipað mikið með boltann í leiknum en Kristianstad átti töluvert fleiri markskot í leiknum.

Lokatölur 1-0 Kristianstad í vil og læristúlkur Elísabetar Gunnarsdóttur því komnar áfram í næstu umferð. Íslendingarnir þrír spiluðu allan leikinn frá upphafi til enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×