Innlent

Forseti rússneska þingsins vill banna þingmanni Pírata að koma inn í landið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þórhildur Sunna segir það munu koma í ljós hvort Rússar láta verða af hótunum sínum.
Þórhildur Sunna segir það munu koma í ljós hvort Rússar láta verða af hótunum sínum.

Rússneska þingið vill banna Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingkonu Pírata að koma til landsins vegna skýrslu sem hún tók saman um alvarleg mannréttindabrot á Krímskaga. Skýrslan var samþykkt á Evrópuráðsþinginu á dögunum.

Fréttablaðið greinir frá því að Vyacheslav Volodin segi þingið í fullum rétti; skýrslan sé byggð á fölskum upplýsingum. Fram kemur á vef Alþingis að Volodin hafi rætt málið við Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, í heimsókn hans til Rússlands.

„Kom forseti Dúmunnar á framfæri athugasemdum við nýsamþykkta skýrslu og yfirlýsingu um stöðu Krímtatara sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var höfundur að á Evrópuráðsþinginu. Kom fram í svari Steingríms að rétt væri að beina athugasemdum að Evrópuráðsþinginu sjálfu en ekki skýrsluhöfundi, enda hefði skýrslan verið rædd þar og samþykkt með afgerandi meiri hluta viðstaddra þingmanna. Þá væri mikilvægt að geta átt samtal, jafnt um það sem sameinar en ekki síður um ágreiningsmál,“ segir um samtal Steingríms og Volodin.

Í samtali við Fréttablaðið sagði Þórhildur Sunna Rússa skylduga til að hleypa sér inn í landið en sér hefði áður verið hótað af rússneskum fulltrúum vegna skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi.

„Við eigum eftir að sjá hvort eitthvað verði úr þessu sem hann segir.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×