Fótbolti

Úr­slita­leikur Meistara­deildar Evrópu fer fram í Portúgal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram á heimavelli Porto í Portúgal.
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram á heimavelli Porto í Portúgal. Octavio Passos/Getty Images

Rétt í þessu var staðfest að úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu mun ekki fara fram í Istanbúl í Tyrklandi eins og stóð til heldur verður hann spilaður í Portúgal.

Vegna fjölda kórónuveirusmita í Tyrklandi hefur verið ákveðið að ekki sé öruggt að leikur Manchester City og Chelsea í úrslitum Meistaradeildar Evrópu fari þar fram. 

Leikurinn hefur verið færður til Portúgal sem er á græna lista Englands svo stuðningsfólk beggja liða getur ferðast á leikinn án þess að þurfa að fara í sóttkví við heimkomuna.

Þetta er annað árið í röð sem úrslitaleikur keppninnar fer fram í Portúgal.

„Að leyfa ekki stuðningsfólki að sjá leikinn í persónu var eitthvað sem við gátum ekki samþykkt. Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu,“ sagði Aleksander Ceferin, forseti UEFA.

Leikurinn fer fram á Estádio do Dragão, heimavelli Porto, og verður 12 þúsund manns hleypt inn á völlinn. Manchester City og Chelsea fá sex þúsund miða hvort.

UEFA, breska ríkisstjórnin og enska knattspyrnusambandið hittust til að ræða hvort hægt væri að spila leikinn á Wembley í Lundúnum en tókst ekki að koma sér saman varðandi undanþágur frá sóttkví fyrir styrktaraðila og þá sem koma að leiknum.

Leikurinn fer fram þann 29. maí næstkomandi og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×