Fótbolti

Settu reglu til að banna ofurdeildarlið

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo er ekki að fara að spila í neinni ofurdeild með Juventus að svo stöddu en ef svo færi þá gæti Juventus ekki keppt um ítalska meistaratitilinn.
Cristiano Ronaldo er ekki að fara að spila í neinni ofurdeild með Juventus að svo stöddu en ef svo færi þá gæti Juventus ekki keppt um ítalska meistaratitilinn. Getty/Jonathan Moscrop

Ítalska knattspyrnusambandið hefur samþykkt reglu sem kemur í veg fyrir að lið geti spilað í ítölsku A-deildinni samhliða því að spila í annarri keppni sem ekki er á vegum FIFA eða UEFA.

Reglan er sett til að koma í veg fyrir að lið geti tekið þátt í keppni á borð við ofurdeildina, sem til stóð að koma á fót í síðustu viku. Hætt hefur verið við þær fyrirætlanir en Juventus, Inter og AC Milan áttu að vera meðal þátttökuliða.

Eftir kröftug mótmæli gegn ofurdeildinni lýstu Mílanóliðin því bæði yfir að þau væru hætt við þátttöku í keppninni. Juventus, Barcelona og Real Madrid eru einu félögin sem ekki hafa dregið sig úr ofurdeildarsamstarfinu.

Ítölsku liðin hugðust eins og önnur spila áfram í deildakeppni í sínu landi, samhliða keppni í ofurdeildinni. Nýja reglan kemur hins vegar í veg fyrir að þau spili í ítalskri deildakeppni.

„Sem stendur þá vitum við ekki hvaða lið eru í ofurdeildinni og hver eru hætt við,“ sagði Gabriele Gravina, formaður ítalska knattspyrnusambandsins.

„Ef að lið skráir sig í einhverja einkadeild áður en fresturinn til að skrá sig í okkar deildakeppni 21. júní, þá fær það ekki að taka þátt,“ sagði Gravina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×