Atvinnulíf

Litlu skrímslaverkefnin sem við frestum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Við eigum það öll til að fresta stundum litlum og fljótlegum verkefnum, sem þó enda með því að taka af okkur orku því við hugsum um þau endalaust og erum með samviskubit yfir því að vera ekki búin að klára þau. En við getum þjálfað okkur í að hætta þessum vana.
Við eigum það öll til að fresta stundum litlum og fljótlegum verkefnum, sem þó enda með því að taka af okkur orku því við hugsum um þau endalaust og erum með samviskubit yfir því að vera ekki búin að klára þau. En við getum þjálfað okkur í að hætta þessum vana. Vísir/Getty

Við eigum það öll til að fresta ýmsum litlum verkefnum. Jafnvel svo litlum, auðveldum og fljótlegum að það hvers vegna við ljúkum þeim ekki af, er oft hreinlega óskiljanlegt. Jafnvel okkur sjálfum.

Þetta geta verið mjög auðveld verkefni samt.

Að svara einhverjum tölvupósti eða hringja örstutt símtal í yfirmanninn okkar. Tekur eina til fimm mínútur.

Samt frestum við.

Aftur og aftur.

Ekki vegna þess að við erum svo ofboðslega upptekin í öðru.

Nei þvert á móti.

Litlu verkefnin sem hér um ræðir, taka nefnilega ofurpláss í huganum okkar.

Við erum því mjög meðvituð um að þetta sé eitthvað sem við ÞURFUM að gera. En erum að humma þau af okkur.

Hvers vegna?

Jú, oft eru þetta einhver verkefni sem við þurfum að klára en þeim fylgja einhver ónot. Gæti verið óþægileg tilfinning eða neikvæð. Finnum það aðeins í maganum en vitum jafnvel ekki alveg hvað veldur.

Við getum því sagt sem svo að þetta séu litlu skrímslaverkefnin okkar. 

Þau eru enga stund gerð og kláruð, en í stað þess að framkvæma, hugsum við um þau daginn út og daginn inn, erum með móral í nokkra daga og klárum ekki.

En hvað ættum við að gera þá?

Það fyrsta sem er gott fyrir okkur að gera er að gefa okkur nokkrar mínútur í að velta þessum verkefnum fyrir okkur.

Eru það til dæmis einhver verkefni umfram önnur, sem við erum gjarnari á að fresta?

Hvaða tilfinning fylgir þessum verkefnum? Og hvers vegna?

Það tekur af okkur ótrúlega mikla orku að fresta litlum verkefnum og fá yfir því samviskubit. Þessi líðan getur valdið okkur kvíða og jafnvel truflað svefninn okkar.

Sem aftur þýðir að við erum að festa okkur í vítahring því rannsóknir hafa sýnt að fólk sem glímir við kvíða, þunglyndi eða of lítinn svefn, er gjarnari á að fresta verkefnum en aðrir.

Það er því til mikils að vinna að ná tökum á þessu og hér eru góð ráð sem geta auðveldað okkur að gera það.

Ráð #1: Þú hefur tvær mínútur!

Næst þegar þú stendur þig að því að ætla að bægja frá þér einhverju óþægilegu verkefni (og festast þannig í fyrrgreindum vítahring), byrjar þú á því að segja strax við sjálfan þig í huganum: 

„Nei! Ég ætla að klára þetta STRAX!“

Og fyrirfram er það ákveðið að þú hefur tvær mínútur til að klára.

Þannig að hana nú, brettu upp ermar og kláraðu!

Það sem gerist með tveggja mínútna reglunni er að hugurinn fer sjálfkrafa í viðbragðs- og framkvæmdarstöðu.

Fókusinn færist á hugsanir eins og „Ókei….ef ég ætla að klára þetta STRAX, hvernig geri ég það?“

Til að gera okkur óhrædd við að prófa þetta ráð og þróa það með okkur, er bent á að rannsóknir afa sýnt að þau verkefni sem við oft hræðumst, frestum aftur og aftur og förum loks að hafa samviskubit yfir að klára ekki, reynast mun auðveldari í framkvæmd þegar að við ráðumst í þau.

Sem er skiljanlegt, því þessi frestunarárátta byggir á tilfinningum og hefur því oftar en ekkert með það að gera, hvort viðfangsefnið var yfir höfuð eitthvað flókið eða neikvætt að öðru leyti en í okkar eigin huga.

Með tveggja mínútna reglunni ýtum við þessum neikvæðu tilfinningum frá, en rökhugsunin tekur við: „Hvernig á ég að klára á 2 mínútum?“

Og áður en þú veist af, er verkefninu lokið.

Þetta er reyndar ráð sem við getum nýtt okkur við fleira en aðeins vegna vinnunnar. Og búið okkur til öðruvísi tímaramma eftir því hvað við teljum best eiga við.

Ímyndum okkur til dæmis að við séum svo alls ekki að nenna að þrífa klósettin.

En í hvert sinn sem við förum á klósettið erum við rækilega minnt á að það er sko löngu kominn tími á þrif.

Við nýtum okkur aðferðina og tökum ákvörðun: „Ókei, ég hef fimm mínútur til að klára að þrífa klósettið og vaskinn. Byrja!“

Og áður en þú veist af, er klósettið orðið glansandi hreint og þér líður miklu betur.

#Ráð 2: Að gera leiðinleg verkefni „skemmtileg“

Annað einfalt ráð getur hjálpað okkur að klára leiðinlegu verkefnin. 

Það felst í því að smita hugann okkar af smá gleði.

Þetta gerum við með því að byrja á því að endurstilla hugann, áður en við ráðumst í leiðinlega verkefnið.

Og við spyrjum okkur sjálf:

 „Hvernig get ég klárað þetta, hratt og vel en þó þannig að það sé skemmtilegt?“

Því það sem gerist þegar að við bætum gleði inn í hugsunina okkar (sbr. lýsingarorðið skemmtilegt), breytist eitthvað.

Og áður en við vitum af, erum við ekki aðeins búin að klára, heldur einnig búin að átta okkur á því að þetta reyndist nú ekkert svo leiðinlegt eftir allt saman.

Sem aftur mun hjálpa okkur næst þegar við klárum sambærilegt verkefni, því þá er hugurinn búinn að stilla sig inn á jákvæðari hugarfar.


Tengdar fréttir

Góð ráð til að sporna við „ofhugsunum“

Að ofhugsa eða verja óendanlegum tíma í að greina hluti og kryfja þá er vandamál sem margir kannast við. Heilu dagarnir geta farið í þessar hugsanir, sem þó leiða oft ekki til neinna lausna.

Frestunaráráttan: Að komast út úr vítahringnum

Stundum er frestunarárátta meðfædd en oft er hægt að vinna sig út úr þeim vítahring að fresta sumum hlutum ítrekað segir Arnar Sveinn Geirsson verkefnastjóri hjá Auðnast. Við fáum samviskubit og líður illa ef við festumst í vítahring frestunaráráttu.

Þjálfa starfsfólk í að þekkja streitueinkennin og gera reglulegar mælingar

„Allir starfsmenn og stjórnendur fá reglulega fræðslu um helstu einkenni streitu, viðbrögð og úrræði, sem er mjög mikilvæg forvörn,“ segir Ágústa Björg Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs hjá Sjóvá um hvernig fyrirtækið vinnur markvisst gegn kulnun starfsfólks. Sjóvá er í góðu samstarfi við Streituskólann og Hugarheim, sem Ágústa segir hafa gefist mjög vel. Samstarfið byggir þá á forvörnum á sviði streitu og kulnunar þar sem starfsfólk og stjórnendur fá ráðgjöf, regluleg fræðsluerindi og handleiðslu.

Fimm einkenni rafrænnar þreytu sem allir þurfa að taka alvarlega

„Þó að rafræn samvera geti sannarlega gert okkur nánari, getur hún einnig orðið til þess að við finnum fyrir meiri einangrun. Þegar við verjum mörgum klukkustundum á viku á Teams-fjarfundum eða Zoom-fyrirlestrum getur það leitt til rafrænnar þreytu,“ segir Ingrid Kuhlman framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar.

Foreldrakulnun og vinnustaðurinn

Fyrir útivinnandi foreldra er vinnunni ekki lokið klukkan fjögur eða fimm á daginn. Þá á oft eftir að sækja börnin á leikskóla eða úr frístundum, skutla þeim á íþróttaæfingar, koma við í búð. Fara síðan heim og reyna að elda þokkalega hollan mat. Ganga frá, skella kannski í eina þvottavél. Vera með hálfgert samviskubit ef öllum verkefnum er ekki sinnt. Þar með talið að stunda hreyfingu sjálf eða kíkja í tölvupóstinn og klára ókláruð verkefni fyrir vinnuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×