Erlent

Banda­rískar her­sveitir í Evrópu í við­bragðs­stöðu vegna Rússa

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Viðvera rússneska hersins við landamærin að Úkraínu hefur aukist á undanförnum vikum.
Viðvera rússneska hersins við landamærin að Úkraínu hefur aukist á undanförnum vikum. Getty/Sergei Malgavko

Rússar hafa varað NATO við því að senda hersveitir til hjálpar Úkraínu en fregnir hafa nú borist af því að hersveitir Rússa safnist nú saman við landamærin að Úkraínu. Talsmaður Kreml sagði í dag að Rússland myndi grípa til frekari ráðstafana sendi NATO hersveitir til þess að mæta Rússum.

Átök milli úkraínskra hersveita og aðskilnaðarsinna, sem hljóta stuðning Rússa, hafa nú aukist í austurhluta Úkraínu.

Hersveitir Bandaríkjanna, sem staðsettar eru í Evrópu, eru í viðbragðsstöðu vegna „aukinnar hættu“ sem stafi af Rússum á svæðinu.

Talsmaður NATO sagði í samtali við fréttastofu Reuters að Rússar gangi þvert á tilraunir til þess að draga úr spennu og átökum í austur-Úkraínu. Sendiherrar aðildarríkja NATO funduðu að sögn talsmannsins á fimmtudag til að ræða stöðuna.

„Bandamenn eru sammála um að stórtækar hernaðaraðgerðir Rússa við og í Úkraínu undanfarið séu áhyggjuefni,“ sagði hann.

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, tók undir áhyggjur NATO þjóða í dag og sagði hann „heræfingar og mögulegar ögranir Rússa við landamærin klassíska rússneska leiki.“

Átök á svæðinu eru ekki ný af nálinni en átök milli Rússa og Úkraínumanna um Krímskagann hófust árið 2014. Átökum hefur hins vegar linnt á undanförnum árum en á undanförnum misserum hafa átök aukist. Þann 26. mars síðastliðinn dóu fjórir úkraínskir hermenn í átökum við aðskilnaðarsinna sem er mesta mannfallið í langan tíma.


Tengdar fréttir

Á þriðja tug fórst með herflugvél í Úkraínu

Liðsforingjaefni úr úkraínska flughernum voru meirihluti þeirra að minnsta kosti 25 sem fórust þegar herflugvél brotlenti nærri borginni Kharkiv í austurhluta Úkraínu í gærkvöldi.

Vopnahlé tekur gildi í Austur-Úkraínu

Vonir eru bundnar við að algert vopnahlé sem tók gildi í dag geti bundið enda á hernaðarátök í austanverðri Úkraínu. Um 13.000 manns hafa fallið í átökum úkraínskra stjórnarhersins og uppreisnarmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×