Innlent

„Af hverju vill heilbrigðisráðherra ekki þetta ferli?“ spyrja fæðinga- og kvensjúkdómalæknar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórn FÍFK spyr að því hvort öryggis- og áhættumat hafi verið gert þegar skimunarferlinu var breytt.
Stjórn FÍFK spyr að því hvort öryggis- og áhættumat hafi verið gert þegar skimunarferlinu var breytt. Vísir/Getty

„Ef leghálsskimunarsýni íslenskra kvenna væru unnin hérlendis myndu þau vera send beint inn á rannsóknarstofu Landspítalans frá sýnatökuaðilanum. Svarið við HPV fengist á 1-2 dögum og færist þá beint inn í rafræna skrá þar sem sýnatökuaðili sér svarið.“

Þetta segir stjórn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna í opnu bréfi til heilbrigðisráðherra sem birtist á Vísi í dag.

„Rannsóknarstofan ynni áfram þau sýni sem þyrfti með frumurannsókn og svarið myndi færast inn í sama kerfi þar sem sýnatökuaðilinn sér það um leið og svarið er tilbúið. Sýni konunnar myndi geymast í íslenskum lífsýnabanka sem hefði tilskilin leyfi hér á landi og enginn vafi á hvaða reglur væru í gildi um meðferð sýnisins. Hér væri enginn milliliður, engin flugferð, engin tilfærsla frá erlendum gagnabanka yfir í íslenskan, engin töf á svartíma til konunnar eða sýnatökuaðila,“ segir í bréfinu.

„Af hverju vill heilbrigðisráðherra ekki þetta ferli?“

Stjórn FÍFK sendi ráðherra bréf 13. desember þar sem bent var á að mikið vantaði upp á að það kerfið væri tilbúið sem taka ætti við skimunum krabbameina frá Krabbameinsfélagi Íslands.

Það sé enn ekki komið í gagnið.

Stjórn FÍFK spyr að því hvenær kerfið verði eiginlega tilbúið.

Svör hafi ekki borist vegna þeirra sýna sem tekin voru í byrjun janúar. Rannsóknarstofan danska sem sér um rannsóknir sýnanna sé búin að svara en svörin bíði hjá heilsugæslunni þar sem unnið sé að því að koma þeim inn í íslenskt kerfi.

Þá spyr hún einnig að því hvort öryggis- og áhættumat hafi verið gert þegar skimunarferlinu var breytt.

„Áður voru eðlileg sýni voru geymd í 10 ár og óeðlilegum sýnum var ekki fargað heldur geymd í lífsýnabanka Krabbameinsfélags Íslands sem hafði tilskilin leyfi frá heilbrigðisráðuneyti okkar. Hvaða lífsýnabanki mun geyma sýni íslenskra kvenna ? Hve lengi verða sýni íslenskra kvenna geymd í þeim lífsýnabanka ? Hvaða lög gilda um rétt íslenskra kvenna þar sem mistök verða við greiningu á sýni ? Hvaða lög gilda fyrir sýni íslenskra kvenna sem geymd eru í erlendum lífsýnabanka?“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×