Fótbolti

Glæsi­­mark í bikar­­sigri Al Arabi og dramatískt jöfnunar­mark Rosengård í Meistara­deildinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Glódís og stöllur eru með allt jafnt eftir fyrri leikinn gegn St. Polten.
Glódís og stöllur eru með allt jafnt eftir fyrri leikinn gegn St. Polten. Chelsea Football Club/Chelsea FC

Al Arabi er komið í undanúrslitaleikinn í Crown Prince bikarnum í Katar eftir 4-1 sigur á Al Sailiya í átta liða úrslitunum í dag.

Al Arabi lenti undir snemma leiks en náði að jafna fyrir hlé. Aron Einar Gunnarsson lagði svo upp annað markið sem var af dýrari gerðinni á 66. mínútu.

Al Arabi gerði út um leikinn með tveimur mörkum til viðbótar á næstu tíu mínútum og lokatölur 4-1.

Aron Einar var tekinn af velli er tíu mínútur voru eftir af leiknum en Heimir Hallgrímsson og Freyr Alexandersson stýra liðinu. Bjarki Már Ólafsson er í starfsliðinu.

Sverrir Ingi Ingason spilaði allan leikinn fyrir PAOK sem gerði 1-1 jafntefli við Lamia í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum gríska bikarsins.

PAOK hafði unnið fyrri leikinn 5-2 og var því í þægilegri stöðu fyrir leik kvöldsins.

Theodór Elmar Bjarnason spilar með Lamia en hann spilaði fyrstu 75 mínútur leiksins.

Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn fyrir Rosengård sem gerði 2-2 jafntefli gegn St. Polten í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Jöfnunarmark Rosengård kom í uppbótartímanum og því er allt jafnt fyrir síðari leikinn sem fer fram í Austurríki í næstu viku.

Glódís Perla lék allan leikinn fyrir Rosengård en Kristún Rut Antonsdóttir síðasta stundarfjórðunginn fyrir St. Poelten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×