Fótbolti

Dætur tveggja forseta Bandaríkjanna fjárfesta í sama kvennafótboltaliði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chelsea Clinton og Jenna Bush Hager hafa báðar sett pening í kvennafótboltann í Bandaríkjunum.
Chelsea Clinton og Jenna Bush Hager hafa báðar sett pening í kvennafótboltann í Bandaríkjunum. Samsett/Getty

Bandaríska kvennaknattspyrnan hefur fengið góðan meðbyr að undanförnu og það er að færast í aukana að fræga og ríka fólkið fjárfesti í kvennafótboltaliðum í Bandaríkjunum.

Nýjasta dæmið um það er í nýjum eigandahópi NWSL liðsins Washington Spirit en NWSL deildin en efsta deild kvenna í Bandaríkjunum. Forráðamenn Washington Spirit tilkynntu í gær um nýjan hóp fjárfesta í félaginu.

Meðal þeirra eru dætur tveggja forseta Bandaríkjanna eða þær Chelsea Clinton og Jenna Bush Hager.

Chelsea er auðvitað dóttir Bill og Hillary Clinton en Jenna er dóttir George W. Bush. Bill Clinton var forseti Bandaríkjanna frá 1992 til 2000 en George W. Bush tók við af honum og var forseti til 2008.

Forsetadæturnar eru í hópi þrjátíu fjárfesta í þessum hópi og þar er fólk að koma úr mörgum áttum.

Meðal þeirra eru Ólympíugullverðlaunahafinn Dominique Dawes og aðstoðarþjálfarinn Briana Scurry. Dawes vann gull í fimleikum á ÓL í Atlanta 1996 en Scurry hjálpaði bandaríska landsliðinu að vinna tvenn Ólympíugullverðlaun og einn heimsmeistaratitil. Scurry er núna aðstoðarþjálfari Washington Spirit.

Meðal annarra sem hafa fjárfest í liðum í bandarísku kvennadeildinni að undanförnu er tenniskonan Naomi Osaka sem varð á dögunum eignandi North Carolina Courage, meistaranna frá 2018 og 2019.

NWSL deildin tilkynnti það líka síðasta sumar að Los Angeles fengi nýtt kvennalið en meðal eiganda þess liðs eru tennisgoðsögnin Serena Williams og Óskarsverðlaunahafinn Natalie Portman.

Liðið hefur verið kallað "Angel City" og er ellefta félagið í deildinni. Gamla tennisstjarnan Billie Jean King og Ólympíumeistarinn Lindsey Vonn eru líka í hóp fjárfestanna á bak við liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×