Umfjöllun og viðtöl: Fram - Valur 26-22 | Valsmenn lentu á vegg í Safamýrinni Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar 28. janúar 2021 21:15 Vísir/Hulda Margrét Fram vann sterkan fjögurra marka sigur á toppliði Vals í Safamýrinni í kvöld, 26-22. Heimamenn leiddu frá fyrstu sókn á meðan Valsmenn leituðu svara allan leikinn. Það voru heimamenn sem byrjuðu þennan leik af miklum krafti og voru mættir til að gefa allt sem þeir áttu, skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins og misstu forystuna ekki niður. Þeir börðust fyrir hverjum bolta og þegar stundarfjórðungur var liðin af leiknum leiddu þeir orðið með 6 mörkum í stöðunni 9-3. Valsmenn sem hreinlega mættu ekki til leiks í fyrri hálfeik rifu sig aðeins í gang á seinni hluta fyrri hálfleiks og bættu við 8 mörkum á seinna korterinu en munurinn þó 5 mörk í hálfleik, 16-11. Það varð lítil breyting á leik liðanna í síðari hálfleik, heimamenn komust í 7 marka forystu á fyrstu mínútunum í stöðunni 18-11. Einar Baldvin Baldvinsson sem kom inn í mark Vals í síðari hálfeik fór að verja einhverja bolta sem hleypti gestunum aðeins inn í leikinn sem minnkuðu stöðuna niður í fjögur mörk. Framarar héldu þó áfram að berjast af öllu hjarta og þegar líða tók á leikinn fóru þeir að sjá sigurinn nálgast sem gaf þeim aukna orku til að klára leikinn sem og þeir gerðu, fjögurra marka sigur á Val staðreynd, 26-22 lokatölur í Safamýrinni. Af hverju vann Fram? Þeir voru mættir til að vinna og það sást á leikmönnum frá fyrstu mínútu. Þvílík barátta, gleði, liðsheild og fyrst og fremst frammistaða frá leikmönnum Fram. Alveg sama hvar á það er litið, skipulagðir og áræðnir sóknarlega, sterkir varnarlega og markvarslan frábær þar fyrir aftan. Hverjir stóðu upp úr? Lárus Helgi Ólafsson var klárlega maður þess leiks, hann var með 17 varða bolta í öllum regnbogans litum og slökkti jafnóðum í þeim litla neista sem Valsmenn reyndu að kveikja í. Vilhelm Poulsen og Stefán Darri Þórsson voru frábærir í liði Fram. Einar Baldvin Baldvinsson var ljósið í myrkrinu hjá Val, endaði með yfir 50% markvörslu í síðari hálfleik en það dugði ekki til á meðan útileikmennirnir voru ekki að skila neinu. Markahæstir voru leikmennirnir í sitthvoru horninu, Stiven Tobar Valencia og Finnur Ingi Stefánsson með 5 mörk hvor. Hvað gekk illa? Fyrst og fremst hugarfar Valsmanna, hvernig þeir mæta í þennan leik var óskiljanlegt. Þeir áttu ekkert í baráttuglatt lið Fram, misstu ítrekað frá sér boltann sóknarlega, voru óskipulagðir og galopnir varnarlega. Fóru snemma að pirra sig á hversu illa gekk og misstu haus. Það leit aldrei út fyrir neina endurkomu frá lærisveinum Snorra Steins sem rúllaði liðinu allan leikinn en fékk lítið framlag. Hvað er framundan? Í næstu umferð fær Valur Selfoss í heimsókn á Hlíðarenda og ljóst að Snorri Steinn þarf að finna einhverja leikgleði hjá sínu liði áður en þeir mæta sterku liði Selfyssinga. Fram hins vegar fer norður til Akureyrar og mætir þar heimamönnum í Þór. Lárus Helgi: Þetta er skemmtilegasti leikur sem ég hefi spilað lengi „Ég get bara ekki hætt að brosa, þetta er einn skemmtilegasti leikur sem ég hef spilað lengi“ sagði Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram Lárus Helgi var með 17 skot varin í leiknum þar af aðeins fimm skot í fyrri hálfleik. Hann lokaði síðan markinu í síðari hálfleik og endaði með tæp 45% markvörslu. „Ég er bara í sjöunda himni hérna, þetta var geggjaður leikur hjá okkur í kvöld frá A-Ö. Ég er bara hrikalega ánægður með þessi tvö stig“ „Sóknarleikurinn var bara allt annar í dag en í síðasta leik. Það var miklu meira flæði, við mættum boltanum og voru virkilega góðir sóknarlega“ Valur sat í efsta sæti deildarinnar fyrir leikinn í kvöld á meðan Fram hafði aðeins unnið einn leik á tímabilinu og það gegn botnliði ÍR. Lárus segir að þeirra frammistaða hafi ekki komið honum á óvart í leiknum „Við förum í alla leiki til að vinna þá, það er engin spurning. Við ætlum að verja heimavöllinn okkar með kjafti og klóm. Það er alveg sama hver kemur hingað, hann þarf að hafa fyrir öllu sem hann ætlar sér að taka héðan“ sagði Lárus og bendir þar á að Safamýrin verði liðum deildarinnar erfið á þessu tímabili Snorri Steinn: Það er áhyggjuefni hvað við erum lélegir eins og er „Við mættum illa til leiks og ég hef svo sem engin svör fyrir þig svona á reiðum höndum af hverju þeir mættu svona til leiks“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals um byrjun þessa leiks hjá hans mönnum Valur lenti strax 3-0 undir í leiknum og skoruðu þeir aðeins þrjú mörk á fyrstu 15 mínútum leiksins. „Ég er óánægður með leikinn í dag, ég er óánægður með það hvernig strákarnir mættu til leiks en tek það ekki heldur af Fram, þeir sýndu meiri vilja, baráttu og vildu vinna þennan leik meira en við. Það eru mestu vonbrigðin hjá mér, ég sá aldrei þennan neista hjá mínu liði og við lögðum ekki það í leikinn sem þarf til að vinna leiki.“ sagði Snorri Steinn vægt til orða tekið, ósáttur með frammistöðu sinna manna „Það vantaði bara rosalega mikið upp á hjá mínum mönnum í dag, við erum bara rosalega lélegir í þessum leik og vorum ekkert mikið skárri í síðasta leik heldur, það er áhyggjuefni. Við erum bara lélegir eins og er og við þurfum að vinna okkur út úr þeirri stöðu“ „Það er lítið sem ég get tekið út úr leikjunum og það eru margir leikmenn langt frá sínu besta“ sagði Snorri og dæsir þegar hann er spurður út í það hvað vantar uppá hjá hans mönnum núna „úff, hvað er þetta langt viðtal? Í þessum leik er ég fyrst og fremst óánægður með þann vilja, baráttu og karakter sem strákarnir sýndu, það er það sem svíður mest heldur en eitthvað taktískt. Ég verð náttúrulega að taka eitthvað á mig og það er hugsanlega eitthvað sem betur mátti fara í undirbúningnum, en það má laga“ sagði Snorri Steinn að lokum Basti: Viljum tileinka okkur að heimavöllurinn okkar sé heilög jörð „Það var einhver maður sem sagði að það væri skemmtilegra að vinna en að tapa“ voru fyrstu orð þjálfara Fram, Sebastians Alexanderssonar eftir magnaðan sigur á Val í kvöld „Það eina sem ég sagði við strákana eftir síðasta leik var í sjálfum sér bara að þora að vera þeir sjálfir“ „Svo náttúrlega þessi áhersla að við erum að reyna að tileinka okkur að heimavöllurinn okkar sé heilög jörð, svo til að segja. Við verðum að treysta á hann. Við förum auðvitað í útileikina til að vinna líka en hér heima eigum við að geta treyst á það að fá einhver stig.“ Sebastian talar um það sama og Lárus Helgi markvörður að liðið ætli sér að byggja upp sterkan heimavöll og sýndu þeir það með frábærri frammistöðu í kvöld. Þjálfarinn segir þennan sóknarleik hafa verið þann besta sem liðið hefur sýnt á tímabilinu „Sóknarleikurinn er klárlega það besta sem við höfum sýnt á þessu tímabili. Ég held að menn hafi líka bara verið ákveðnir í því að sýna að þeir gætu spilað sókn“ „Ég myndi segja að stærsti sigurinn fyrir okkur í þessum leik eru ekki þessi tvö stig, heldur að fara í svona leik og hafa þorað að vinna hann“ sagði Basti að lokum Olís-deild karla Fram Valur
Fram vann sterkan fjögurra marka sigur á toppliði Vals í Safamýrinni í kvöld, 26-22. Heimamenn leiddu frá fyrstu sókn á meðan Valsmenn leituðu svara allan leikinn. Það voru heimamenn sem byrjuðu þennan leik af miklum krafti og voru mættir til að gefa allt sem þeir áttu, skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins og misstu forystuna ekki niður. Þeir börðust fyrir hverjum bolta og þegar stundarfjórðungur var liðin af leiknum leiddu þeir orðið með 6 mörkum í stöðunni 9-3. Valsmenn sem hreinlega mættu ekki til leiks í fyrri hálfeik rifu sig aðeins í gang á seinni hluta fyrri hálfleiks og bættu við 8 mörkum á seinna korterinu en munurinn þó 5 mörk í hálfleik, 16-11. Það varð lítil breyting á leik liðanna í síðari hálfleik, heimamenn komust í 7 marka forystu á fyrstu mínútunum í stöðunni 18-11. Einar Baldvin Baldvinsson sem kom inn í mark Vals í síðari hálfeik fór að verja einhverja bolta sem hleypti gestunum aðeins inn í leikinn sem minnkuðu stöðuna niður í fjögur mörk. Framarar héldu þó áfram að berjast af öllu hjarta og þegar líða tók á leikinn fóru þeir að sjá sigurinn nálgast sem gaf þeim aukna orku til að klára leikinn sem og þeir gerðu, fjögurra marka sigur á Val staðreynd, 26-22 lokatölur í Safamýrinni. Af hverju vann Fram? Þeir voru mættir til að vinna og það sást á leikmönnum frá fyrstu mínútu. Þvílík barátta, gleði, liðsheild og fyrst og fremst frammistaða frá leikmönnum Fram. Alveg sama hvar á það er litið, skipulagðir og áræðnir sóknarlega, sterkir varnarlega og markvarslan frábær þar fyrir aftan. Hverjir stóðu upp úr? Lárus Helgi Ólafsson var klárlega maður þess leiks, hann var með 17 varða bolta í öllum regnbogans litum og slökkti jafnóðum í þeim litla neista sem Valsmenn reyndu að kveikja í. Vilhelm Poulsen og Stefán Darri Þórsson voru frábærir í liði Fram. Einar Baldvin Baldvinsson var ljósið í myrkrinu hjá Val, endaði með yfir 50% markvörslu í síðari hálfleik en það dugði ekki til á meðan útileikmennirnir voru ekki að skila neinu. Markahæstir voru leikmennirnir í sitthvoru horninu, Stiven Tobar Valencia og Finnur Ingi Stefánsson með 5 mörk hvor. Hvað gekk illa? Fyrst og fremst hugarfar Valsmanna, hvernig þeir mæta í þennan leik var óskiljanlegt. Þeir áttu ekkert í baráttuglatt lið Fram, misstu ítrekað frá sér boltann sóknarlega, voru óskipulagðir og galopnir varnarlega. Fóru snemma að pirra sig á hversu illa gekk og misstu haus. Það leit aldrei út fyrir neina endurkomu frá lærisveinum Snorra Steins sem rúllaði liðinu allan leikinn en fékk lítið framlag. Hvað er framundan? Í næstu umferð fær Valur Selfoss í heimsókn á Hlíðarenda og ljóst að Snorri Steinn þarf að finna einhverja leikgleði hjá sínu liði áður en þeir mæta sterku liði Selfyssinga. Fram hins vegar fer norður til Akureyrar og mætir þar heimamönnum í Þór. Lárus Helgi: Þetta er skemmtilegasti leikur sem ég hefi spilað lengi „Ég get bara ekki hætt að brosa, þetta er einn skemmtilegasti leikur sem ég hef spilað lengi“ sagði Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram Lárus Helgi var með 17 skot varin í leiknum þar af aðeins fimm skot í fyrri hálfleik. Hann lokaði síðan markinu í síðari hálfleik og endaði með tæp 45% markvörslu. „Ég er bara í sjöunda himni hérna, þetta var geggjaður leikur hjá okkur í kvöld frá A-Ö. Ég er bara hrikalega ánægður með þessi tvö stig“ „Sóknarleikurinn var bara allt annar í dag en í síðasta leik. Það var miklu meira flæði, við mættum boltanum og voru virkilega góðir sóknarlega“ Valur sat í efsta sæti deildarinnar fyrir leikinn í kvöld á meðan Fram hafði aðeins unnið einn leik á tímabilinu og það gegn botnliði ÍR. Lárus segir að þeirra frammistaða hafi ekki komið honum á óvart í leiknum „Við förum í alla leiki til að vinna þá, það er engin spurning. Við ætlum að verja heimavöllinn okkar með kjafti og klóm. Það er alveg sama hver kemur hingað, hann þarf að hafa fyrir öllu sem hann ætlar sér að taka héðan“ sagði Lárus og bendir þar á að Safamýrin verði liðum deildarinnar erfið á þessu tímabili Snorri Steinn: Það er áhyggjuefni hvað við erum lélegir eins og er „Við mættum illa til leiks og ég hef svo sem engin svör fyrir þig svona á reiðum höndum af hverju þeir mættu svona til leiks“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals um byrjun þessa leiks hjá hans mönnum Valur lenti strax 3-0 undir í leiknum og skoruðu þeir aðeins þrjú mörk á fyrstu 15 mínútum leiksins. „Ég er óánægður með leikinn í dag, ég er óánægður með það hvernig strákarnir mættu til leiks en tek það ekki heldur af Fram, þeir sýndu meiri vilja, baráttu og vildu vinna þennan leik meira en við. Það eru mestu vonbrigðin hjá mér, ég sá aldrei þennan neista hjá mínu liði og við lögðum ekki það í leikinn sem þarf til að vinna leiki.“ sagði Snorri Steinn vægt til orða tekið, ósáttur með frammistöðu sinna manna „Það vantaði bara rosalega mikið upp á hjá mínum mönnum í dag, við erum bara rosalega lélegir í þessum leik og vorum ekkert mikið skárri í síðasta leik heldur, það er áhyggjuefni. Við erum bara lélegir eins og er og við þurfum að vinna okkur út úr þeirri stöðu“ „Það er lítið sem ég get tekið út úr leikjunum og það eru margir leikmenn langt frá sínu besta“ sagði Snorri og dæsir þegar hann er spurður út í það hvað vantar uppá hjá hans mönnum núna „úff, hvað er þetta langt viðtal? Í þessum leik er ég fyrst og fremst óánægður með þann vilja, baráttu og karakter sem strákarnir sýndu, það er það sem svíður mest heldur en eitthvað taktískt. Ég verð náttúrulega að taka eitthvað á mig og það er hugsanlega eitthvað sem betur mátti fara í undirbúningnum, en það má laga“ sagði Snorri Steinn að lokum Basti: Viljum tileinka okkur að heimavöllurinn okkar sé heilög jörð „Það var einhver maður sem sagði að það væri skemmtilegra að vinna en að tapa“ voru fyrstu orð þjálfara Fram, Sebastians Alexanderssonar eftir magnaðan sigur á Val í kvöld „Það eina sem ég sagði við strákana eftir síðasta leik var í sjálfum sér bara að þora að vera þeir sjálfir“ „Svo náttúrlega þessi áhersla að við erum að reyna að tileinka okkur að heimavöllurinn okkar sé heilög jörð, svo til að segja. Við verðum að treysta á hann. Við förum auðvitað í útileikina til að vinna líka en hér heima eigum við að geta treyst á það að fá einhver stig.“ Sebastian talar um það sama og Lárus Helgi markvörður að liðið ætli sér að byggja upp sterkan heimavöll og sýndu þeir það með frábærri frammistöðu í kvöld. Þjálfarinn segir þennan sóknarleik hafa verið þann besta sem liðið hefur sýnt á tímabilinu „Sóknarleikurinn er klárlega það besta sem við höfum sýnt á þessu tímabili. Ég held að menn hafi líka bara verið ákveðnir í því að sýna að þeir gætu spilað sókn“ „Ég myndi segja að stærsti sigurinn fyrir okkur í þessum leik eru ekki þessi tvö stig, heldur að fara í svona leik og hafa þorað að vinna hann“ sagði Basti að lokum