Handbolti

Loksins brosti Dagur Sigurðs­son

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Króötum þykir Dagur Sigurðsson vera mjög alvörugefinn en hann brosti eftir frábæran sigur á Frökkum í undanúrslitleik HM.
Króötum þykir Dagur Sigurðsson vera mjög alvörugefinn en hann brosti eftir frábæran sigur á Frökkum í undanúrslitleik HM. Getty/Luka Stanzl

Króatískir fjölmiðlamenn hafa saknað þess hversu Dagur Sigurðsson hefur brosað lítið síðan að hann tók við handboltalandsliði þeirra.

Dagur hefur verið að gera frábæra hluti með króatíska landsliðið á heimsmeistaramótinu í ár og hefur hjálpað liðinu að komast upp úr lægð síðustu ára.

Fréttamenn króatíska miðilsins 24 Sata eru í hópi þeirra sem vildu sjá landsliðsþjálfarann brosa meira en þeir fögnuðu því sérstaklega að sjá bros íslenska þjálfarans eftir sigur Króatíu á Frakklandi í undanúrslitaleik HM.

Króatar bjuggu til ævintýralegt umhverfi í höllinni og liðið þeirra svaraði með því að komast í 18-9 á móti Evrópumeisturum Frakka sem höfðu einnig unnið silfur á síðasta heimsmeistaramóti. Króatar lönduðu síðan flottum sigri og eru öruggir með sín fyrstu verðlaun á heimsmeistaramóti síðan 2013.

„Króatíska geðshræringin fékk hinn kalda Skandinava til að brosa loksins,“ skrifaði blaðamaður 24 Sata.

„Við höfðum séð svo lítið af brosi Dags Sigurðssonar en nú fengum við að sjá ósvikið bros, bros sem sendir skilaboðin um að honum líði nú eins og hann sé hluti af þessari þjóð. Að honum líði núna eins og hann sé Hrvatsson.“

Dagur varð auðvitað fyrsti útlendingurinn til að stýra landsliði Króata og það var stórt skrefa að taka fyrir handboltasambandið þar. Það efast enginn um þá ákvörðun í dag og nú er liðið aðeins einum leik frá heimsmeistaratitli.

Mótherjinn verður Danmörk á morgun. Danir eru miklu sigurstranglegri í úrslitaleiknum enda hafa þeir verið óstöðvandi á þessu móti og unnu undanúrslitaleikinn sinn á Portúgal með þrettán mörkum. Þeir hafa líka ekki tapað leik á heimsmeistari í átta ár.

Við verðum því að sjá til hvort að Hrvatsson ævintýrið fái líka góðan endi eins og þegar Dagur skrifaði ævintýrið með þýska landsliðinu sem varð Evrópumeistari undir hans stjórn árið 2016 þrátt fyrir að vera án fjölda lykilmanna.


Tengdar fréttir

„Ég gæti ekki verið ánægðari“

Dagur Sigurðsson var að sjálfsögðu mjög ánægður eftir frábæran sigur króatíska landsliðsins á því franska í undanúrslitaleik heimsmeistaramótsins í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×