Innlent

Líkams­á­rás, iPad-þjófnaður og fjár­svik

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan handtók ungan mann sem grunaður er um líkamsárás.
Lögreglan handtók ungan mann sem grunaður er um líkamsárás. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um líkamsárás á Seltjarnarnesi skömmu fyrir klukkan tvö í nótt. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Þar segir að ungur maður hafi verið handtekinn grunaður um árásina en áverkar brotaþola liggja ekki fyrir.

Þá barst tilkynning um stolna iPad-spjaldtölvu á tólfta tímanum í gærkvöldi, að því er fram kemur í dagbók. Þar segir að eigandi spjaldtölvunnar hafi haft upplýsingar um gerandann og lögregla því farið að heimili hans.

„Er lögreglumenn komu að heimilisfanginu var gerandinn þar fyrir utan í leigubifreið, gat ekki greitt fyrir aksturinn og var því einnig kærður fyrir fjársvik,“ segir í dagbók. Þar kemur einnig fram að spjaldtölvan hafi komist í réttar hendur.

Þá hafði lögregla afskipti af níu ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Eins hafði lögregla afskipti af ökumanni sem ók á rúmlega tvöföldum hámarkshraða, 61 kílómetra hraða, þar sem hámarkið er 30. Sá játaði brot sitt við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×