Fótbolti

Renard skoraði tvö er Lyon heldur í við PSG

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Renard skoraði fyrstu tvö mörk Lyon í kvöld.
Renard skoraði fyrstu tvö mörk Lyon í kvöld. Jonathan Moscrop/Getty Images

Miðvörðurinn Wendie Renard skoraði bæði mörk Lyon í 3-0 sigri á Stade de Reims í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Sara Björk Gunnarsdóttir lék aðeins fimmtán mínútur í liði Lyon.

Þá var Svava Rós Guðmundsdóttir ekki í leikmannahóp Boredaux sem tapaði 1-0 á útivelli gegn toppliði Paris Saint-Germain.

Sara Björk hóf leik kvöldsins á varamannabekk Lyon en það kom ekki að sök. Eftir markalausan fyrri hálfleik var það hin hávaxna Renard sem kom Evrópu- og Frakklandsmeisturum Lyon yfir þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Hún var svo aftur að verki á 65. mínútu og staðan orðin 2-0. Sara Björk kom inn á þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum og í uppbótartíma skoraði Amandine Henry þriðja mark Lyon og tryggði 3-0 sigur liðsins.

Lyon er sem fyrr stigi á eftir PSG sem trónir á toppnum þökk sé 1-0 sigri á Bordeaux. Íslenska landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir gekk nýverið í raðir Bordeaux. Hún hefur verið að glíma við meiðsli og var ekki í leikmannahóp liðsins í kvöld. 

Alls eru því fjórar íslenskar landsliðskonur í deildinni en Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir leika báðar með Le Havre.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×