Handbolti

Átta Tékkar smitaðir til Færeyja viku fyrir HM

Sindri Sverrisson skrifar
Vegna varúðarráðstafana urðu Tomás Babak og fimm aðrir reynsluboltar úr tékkneska landsliðinu eftir í Tékklandi, samkvæmt heimasíðu tékkneska handboltasambandsins.
Vegna varúðarráðstafana urðu Tomás Babak og fimm aðrir reynsluboltar úr tékkneska landsliðinu eftir í Tékklandi, samkvæmt heimasíðu tékkneska handboltasambandsins. EPA/VALDRIN XHEMAJ

Leik Færeyja og Tékklands í undankeppni EM í handbolta karla var frestað í dag eftir að átta manns úr leikmannahópi og starfsliði Tékklands reyndust smitaðir af kórónuveirunni við komuna til Færeyja.

Frá þessu greina færeyskir miðlar, meðal annars Kringvarp Føroya.

Tékkneski hópurinn hélt í burtu frá Færeyjum síðdegis en til stóð að liðin myndu mætast öðru sinni í Tékklandi á laugardag. Fram kemur á heimasíðu tékkneska handknattleikssambandsins að EHF, handknattleikssamband Evrópu, muni á morgun tilkynna ákvörðun sína varðandi leikinn á laugardag.

Tékknesku landsliðsmennirnir verða í einangrun á einstaklingsherbergjum í Pilsen næstu daga, jafnvel þó að það þýði að sleppa þurfi æfingum, að því er segir á heimasíðu tékkneska sambandsins.

Eins og fram kom á Vísi í gær greindust báðir þjálfarar Tékklands með kórónuveiruna við smitpróf 2. janúar en þá greindist enginn leikmanna liðsins með jákvætt sýni, né heldur í smitprófum 4. janúar. Tékkar gripu þó til þeirra varúðarráðstafana að skilja sex af reyndustu leikmönnum liðsins eftir í Tékklandi í stað þess að þeir færu til Færeyja, samkvæmt heimasíðu tékkneska sambandsins.

Aðeins vika er þar til að HM í Egyptalandi hefst og algjör óvissa ríkir um hvaða liði Tékkar munu geta teflt þar fram. Þeir hyggjast ferðast til Egyptalands 12. janúar og eiga leik við Svíþjóð 14. janúar. Tékkar eru einnig í riðli með Síle og heimamönnum, Egyptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×