Innlent

Úr skóg­ræktinni og í stól sveitar­stjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Helgi Gíslason er skógfræðingur að mennt og hefur undanfarin sextán ár gegnt starfi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Helgi Gíslason er skógfræðingur að mennt og hefur undanfarin sextán ár gegnt starfi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur. Skógræktarfélag Reykjavíkur.

Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, hefur verið ráðinn nýr sveitarstjóri Fljótsdalshrepps. Á heimasíðu hreppsins segir að sveitarstjórn hafi einróma ákveðið að ráða Helga sem valinn var úr hópi sautján umsækjenda.

Í tilkynningu segir að Helgi sé fæddur og uppalinn Héraðsbúi, ættaður frá Helgafelli í Fellabæ þar sem hann hafi búið til ársins 2004.

„Hann er skógfræðingur að mennt og hefur undanfarin 16 ár gegnt starfi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur en þar áður gegndi hann starfi framkvæmdastjóra Héraðsskóga fyrstu 14 starfsár þess verkefnis.

Helgi þekkir vel til fólks og samfélags í Fljótsdal, atvinnufyrirtækja og stofnana sem þar eru.

Jafnframt því að bjóða Helga velkominn í Fljótsdalinn þakkar sveitarstjórn öllum umsækjendum fyrir áhugann,“ segir í tilkynningunni.

Gunnþórunn Ingólfsdóttir hætti sem sveitarstjóri fyrr á árinu eftir að hafa gegnt stöðunni frá árinu 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×