Enski boltinn

Það var á þessum degi fyrir 30 árum sem Liverpool vann síðast titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 John Barnes og Peter Beardsley voru í stóru hlutverki hjá Liverpool tímabilið 1989-90.
 John Barnes og Peter Beardsley voru í stóru hlutverki hjá Liverpool tímabilið 1989-90. Getty/Dan Smith

Liverpool varð síðast Englandsmeistari 28. apríl 1990 þegar liðið vann 2-1 sigur á Queens Park Rangers á Anfield.

Liverpool átti enn tvo leiki eftir af tímabilinu en Aston Villa gerði á sama tíma 3-3 jafntefli við Norwich og gat ekki lengur náð Liverpool að stigum. Aston Villa endaði í öðru sætinu, níu stigum á eftir Liverpool.

Kenny Dalglish var þarna að gera Liverpool að meisturum í þriðja sinn á fimm árum (1986, 1988, 1990) og þetta var átjándi meistaratitill félagsins frá upphafi sem þarna var met.

Það voru þeir Ian Rush og John Barnes sem skoruðu mörk Liverpool liðsins í þessum sigri á QPR en sjö dögum fyrr hafði Liverpool liðið unnið 4-1 sigur á Chelsea.

Liverpool tapaði fjórum sinnum í sjö leikjum frá 21. október til 29.nóvember en sá slæmi kafli endaði með 4-1 sigri á Manchester City og Liverpool tapaði aðeins einum deildarleik eftir 1. desember.

Tveir leikmenn spiluðu alla 38 leiki liðsins á tímabilinu en það voru markvörðurinn Bruce Grobbelaar og miðjumaðurinn Steve McMahon. Knattspyrnustjórinn Kenny Dalglish spilaði einn leik en hann spilaði næstsíðasta leik liðsins á móti Derby en þá var titilinn í höfn.

John Barnes var markahæsti leikmaðurinn á tímabilinu með 22 mörk í 34 deildarleikjum, Ian Rush skoraði 18 mörk í 36 deildarleikjum og Peter Beardsley var með 10 mörk í 29 deildarleikjum.

John Barnes var líka með flestar stoðsendingar eða ellefu en Peter Beardsley lagði upp átta mörk. Ian Rush og Steve Nicol voru síðan báðir með sex stoðsendingar.

Liverpool endaði í öðru sæti á eftir Arsenal tímabilið á eftir en Kenny Dalglish hætti þá óvænt sem knattspyrnustjóri félagsins 22. febrúar eftir 4-4 jafntefli við Everton.

Graeme Souness tók við liðinu í apríl en fram að því sat Ronnie Moran í stjórastólnum. Á næstu þremur tímabilum endaði Liverpool aldrei ofar en sjötta sæti og Graeme Souness sagði á endanum af sér áður en 1993-94 tímabilinu lauk.

Liverpool hefur fjórum sinnum endaði í öðru sæti (2001-02, 2008-09, 2013-14 og 2018-19) og var síðan með 25 sitga forystu á toppi deildarinnar þegar hlé var gert á tímabilinu vegna baráttunnar við útbreiðslu kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×