Erlent

Sakar glæpagengi um að notfæra sér faraldurinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd sem forsetaembætti El Salvador gaf út sem sýnir grímuklæddan fangavörð fylgjast með reglulegu eftirliti með föngum í hámarksöryggisfangelsi í Zacatecoluca á laugardag.
Mynd sem forsetaembætti El Salvador gaf út sem sýnir grímuklæddan fangavörð fylgjast með reglulegu eftirliti með föngum í hámarksöryggisfangelsi í Zacatecoluca á laugardag. Vísir/EPA

Forseti El Salvador sakar þarlend glæpagengi um að notfæra sér að öryggissveitir landsins beini nú kröftum sínum að því að stöðva útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Fleiri en fimmtíu manns voru myrtir í Mið-Ameríkulandinu um helgina.

Morðtíðnin í El Salvador er ein sú hæsta á byggðu bóli. Helsta loforð Nayib Bukele var að lækka hana þegar hann var kjörinn forseti í fyrra. Blóðbaðið hélt þó áfram um helgina. Á föstudag var tilkynnt um 24 morð, þau flestu á einum degi frá því að Bukele tók við embætti í júní. Síðdegis á sunnudag höfðu 29 morð bæst við, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Bukele brást við morðöldunni með því að heimila lögreglu og hernum að skjóta glæpamenn til bana. Þá voru fangelsaðir félagar í glæpagengjum settir í einangrun með þeim rökum að fyrirmæli um mörg morðin hafi verið gefin í fangelsum landsins.

Forsetinn boðar fleiri aðgerðir til að stöðva ofbeldið. Hótar hann því að fangar úr mismunandi gengjum verði látnir deila fangaklefum. Osiris Luna, dómsmálaráðherra, segir að því sé ætlað að takmarka samskipti á milli félaga í sömu gengjum innan veggja fangelsanna og koma í veg fyrir að þeir geti skipulagt ofbeldisverk utan þeirra.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt ríki heims til þess að sleppa föngum í áhættuhópi til að draga úr álagi og smithættu í yfirfullum fangelsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×