Innlent

Strætó dregur úr akstri á höfuð­borgar­svæðinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Strætó mun draga úr akstri vegna kórónuveirufaraldursins og taka breytingar á leiðakerfi gildi þriðjudaginn 31. mars. 
Strætó mun draga úr akstri vegna kórónuveirufaraldursins og taka breytingar á leiðakerfi gildi þriðjudaginn 31. mars.  vísir

Strætó mun draga tímabundið úr akstri á höfuðborgarsvæðinu til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Breytingarnar munu taka gildi á morgun, þriðjudaginn 31. mars, en ekki liggur fyrir hvenær þjónusta Strætó falli í eðlilegt horf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.

Breytingarnar verða eftirfarandi:

Á virkum dögum munu strætisvagnar höfuðborgarsvæðisins aka samkvæmt laugardagsáætlun með nokkrum undantekningum: Leið 31 mun aka á hálftíma fresti fyrir og eftir hádegi á virkum dögum; Pöntunarþjónustuleiðirnar 27 og 29 aka samkvæmt hefðbundinni áætlun; Leiðir 8, 16, 22, 33 og 34 hætta öllum akstri; Á virkum dögum mun leið 15 aka fjórar skipulagðar ferðir frá Reykjalundi í átt að Flyðrugranda. Vilji farþegar stoppa hjá Reykjalundi á leið í átt að Mosfellsbæ þurfa þeir að láta vagnstjórann vita og mun hann taka krók að Reykjalundi.

Þá verður aukaferðum bætt við á morgnanna til að akstur hefjist á svipuðum tíma og á venjulegum virkum degi. Akstur á laugardögum og sunnudögum verður óbreyttur. Hægt er að nálgast upplýsingar um fyrstu ferðir vagnanna á virkum dögum hér.

Öllum næturakstri úr miðbænum um helgar verður hætt tímabundið.

Þá verður biðstöðvatöflum á stoppistöðvum ekki breytt og eru farþegar beðnir um að skoða áætlunartíma inni á heimasíðu Strætó eða í snjallsímaforriti Strætó.

Farþegar eru einnig minntir á að framhurð vagna er lokuð og farþegar eru beðnir um að ganga inn um aftari dyr vagnsins. Innra rými vagnanna er skipt í tvo hluta og hefur borði verið strengdur yfir fremsta hluta vagnanna til að aðskilja svæði vagnstjóra og svæði farþega.

Farþegar eru einnig beðnir um að nýta sér Strætóappið til að greiða fyrir ferðirnar eða notast við strætókort til að fækka snertifleti um borð í vögnunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×