Innlent

Flugvél hlekktist á við nauðlendingu á Þingvallavatni

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Þingvallavatni. Myndin er úr safni.
Frá Þingvallavatni. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Engan sakaði þegar lítilli flugvél hlekktist á við nauðlendingu á ísilögðu Þingvallavatni í gærkvöldi. Nefhjól vélarinnar brotnaði við lendinguna en flugmaðurinn ákvað að lenda á ísnum vegna vélarbilunar.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir mennirnir sem voru um borð í vélinni hafi komist sjálfur úr henni og af ísnum. Björgunarsveitarfólk frá Laugavatni og Hveragerði komu á staðinn en ákveðið var að reyna ekki að koma vélinni af ísnum vegna þess hversu ótryggur hann er.

Til stendur að reyna að hífa flugvélina af ísnum með þyrlu á morgun.

Jónas Sturla Sverrisson, formaður Fisfélags Reykjavíkur, segir að um litla flugvél hafi verið að ræða. Við lendinguna hafi hún lent í miklum krapa á ísnum og stöðvast hratt. Framhjól hennar hafi gefið sig undan þunga krapans. Vegna krapans hafi heldur ekki verið hægt að draga vélina af ísnum.

Hann segir vélina við Sandey, um tvo og hálfan kílómetra frá landi. Hún verði sótt með þyrlu í fyrramálið.

Uppfært 22:51 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var haft eftir Sveini Kristjáni yfirlögregluþjóni að um fisflugvél hafi verið að ræða. Fréttin hefur verið uppfærð með lýsingum formanns Fisfélags Reykjavíkur á atvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×