Innlent

Sex ára hestasirkusstelpa

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Svala Björk hikar ekki við að standa á baki Viðju á hnakkanum og gera þar sirkusatriði, merin stendur alltaf alveg kyrr á meðan.
Svala Björk hikar ekki við að standa á baki Viðju á hnakkanum og gera þar sirkusatriði, merin stendur alltaf alveg kyrr á meðan. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þrátt fyrir að Svala Björk Hlynsdóttir á Selfossi sé ekki nema sex ára þá fer hún létt með að ríða hestum á öllum gangtegundum og sýna sirkusatriði á þeim. Henni finnst þó allra skemmtilegast að leggja á skeið.

Svala Björk, sem er nemandi í Sunnulækjarskóla kemst alltaf á hestbak þegar hún vill á bænum Grænhóli í Ölfusi þar sem amma hennar og afi reka myndarlegt hrossaræktarbú og mamma hennar, Þórdís Gunnarsdóttir sér m.a. um tamningar á bænum. Áður en Svala leggur á Viðju þá lakkar hún hófana á henni svo þeir verði ekki þurrir þegar hún fer á bak. Þá er Viðja teymd inn í reiðhöll þar sem Svala Björk skellir sér á baka og ríður nokkra hringi á mismunandi gangtegundum.

„Mér finnst skemmtilegast að fara á stökk og svo finnst mér líka skemmtilegt að leggja hnakkinn á Viðju og það er líka skemmtilegt að leggja hana á skeið,“ segir Svala Björk.

Hún segist alltaf vera mjög ánægð með Viðju, sem hún á, ásamt frænku sinni. „Já, hún er mjög góð og hún gerir allt sem ég segi henni að gera.“

Svala Björk gerir stundum sirkusatriði á Viðju en þá stendur hún upp á hnakknum á baki og gerir allskonar listir.

„Ég ætla að vera hestakona þegar ég er orðin stór, ég er svona dugleg því ég er alltaf á hestbaki en það er það skemmtilegasta, sem ég geri“, segir þessi skemmtilega og efnilega hestastelpa.

Vinkonurnar, Svala Björk og Viðja, sem eiga sínar gæðastundir saman nokkrum sinnum í viku í reiðhöllinni á Grænhóli.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×