Fótbolti

Juventus dæmdur sigur í leiknum þar sem Napoli mætti ekki til leiks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Napoli mættu ekki á Allianz-völlinn þegar þeir áttu leik gegn Juventus þann 4. október.
Napoli mættu ekki á Allianz-völlinn þegar þeir áttu leik gegn Juventus þann 4. október. Filippo Alfero/Getty

Þann 4. október áttu Juventus og Napoli að mætast á Allianz-vellinum í ítölsku úrvalsdeildinni. Gestirnir í Napoli mættu hins vegar aldrei til leiks en heilbrigðisyfirvöld borgarinnar bönnuðu liðinu að ferðast til Tórínó vegna kórónufaraldursins.

Þrátt fyrir að vita að Napoli myndi ekki mæta til leiks þá mættu leikmenn Juventus út á völl og hituðu upp líkt og leik væri að ræða. Á endanum var leiknum aflýst 45 mínútum eftir að hann átti að fara fram.

Nú hefur ítalska úrvalsdeildin ákveðið að dæma Juventus 3-0 sigur í málinu og taka jafnframt eitt stig af Napoli fyrir að mæta ekki til leiks.

Ástæða þess að Napoli fékk ekki leyfi til að ferðast var sú að tveir leikmenn félagsins ásamt meðlimi í starfsliði þess greindust með kórónuveiruna skömmu áður. Piotr Zielinski og Eljif Elmas eru leikmennirnir sem um er ræðir.

Napoli hafði vonast til þess að leiknum yrði einfaldlega frestað en nú hefur úrvalsdeildin ákveðið að refsa félaginu fyrir athæfið. Napoli hefur gefið í skyn að þeir muni áfrýja til alþjóða íþróttadómstólsins [CAS] sem og til hæstu íþróttayfirvalda á Ítalíu.

Sigur Juventus þýðir að meistararnir fara nú upp í 4. sæti deildarinnar á meðan Napoli dettur niður í það áttunda.


Tengdar fréttir

Napoli mætti ekki til leiks gegn Juventus

Napoli átti að mæta Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld. Napoli mætti hins vegar ekki til leiks og óljóst er hvort leikurinn verði leikinn síðar eða Napoli gefi hann einfaldlega




Fleiri fréttir

Sjá meira


×