Innlent

Sam­vinnu­þýðir ung­lingar sendir heim úr sam­kvæmi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af unglingasamkvæmi á Seltjarnarnesi skömmu fyrir miðnætti í nótt. Í dagbók lögreglu segir að 13 unglingar hafi verið viðstaddir og húsráðandi aðeins 16 ára. Þá hafi verið mikil áfengislykt og áfengisumbúðir um víð og dreif.

Foreldrar húsráðanda voru ekki heima, eftir því sem fram kemur í dagbók lögreglu. Þar kemur einnig fram að unglingarnir hafi verið kurteisir og samvinnuþýðir við lögreglu. Haft verði samband við foreldra þeirra sem eru yngri en 18 ára og tilkynningu komið áleiðis til Barnaverndar.

Klukkan 00:45 barst lögreglu þá tilkynning um innbrot í verslun á Granda. Hurð verslunarinnar hafði verið spennt upp og einhver farið inn. Fleiri hurðir inni í versluninni höfðu þá verið spenntar upp og tilraun gerð til þess að komast inn í peningaskáp. Viðkomandi varð þó ekki kápan úr því klæðinu og fór tómhentur af vettvangi samkvæmt lögreglu.

Upp úr klukkan fjögur í nótt var bifreið stöðvuð á Kringlumýrarbraut. Ökumaður hennar, ung stúlka, gaf lögreglu í fyrstu upp ranga kennitölu og reyndist við nánari skoðun aðeins vera 16 ára. Hún hafði því ekki öðlast ökuréttindi. Samkvæmt lögreglu voru fjórir farþegar með í för, allir undir 18 ára aldri. Málið var tilkynnt til Barnaverndar.

Í dagbók lögreglu, sem nær yfir tímabil frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun, voru skráð fimm atvik þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×