Fótbolti

Þrír úr ítalska 21 árs landsliðinu greindust með kórónuveiruna við komuna í Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn ítalska 21 árs landsliðsins fyrir leik á móti Armeníu í nóvember í fyrra.
Leikmenn ítalska 21 árs landsliðsins fyrir leik á móti Armeníu í nóvember í fyrra. Getty/Maurizio Lagana

Ítalska knattspyrnusambandið hefur staðfest það að þrír úr 21 árs landsliði Ítala séu með kórónuveiruna en þetta kom í ljós þegar þeir fóru í smitpróf í Keflavík.

Tveir leikmenn og einn starfsmaður greindust með kórónuveiruna við komuna til Íslands en allur hópurinn fór í smitpróf í Leifsstöð. Þetta fékk fótboltavefurinn football-italia.net staðfest frá sambandinu.

Ítalir eiga að mæta Íslandi á Víkingsvelli í dag í undankeppni EM 21 árs landsliða. Leikurinn er klukkan 15:30 í dag og verður fylgst grannt með gangi mála á Vísi.

Allur ítalski hópurinn hafði farið þrisvar í próf áður en þeir flugu til Íslands og voru þeir þá allir neikvæðir.

Einn af þessum þremur er með einkenni en hinir tveir voru ekki með eins mikið af veirunni í sér.

Leikmennirnir Alessandro Bastoni og Marco Carnesecchi fóru hins vegar ekki með til Íslands þar sem að þeir voru komnir með kórónuveiruna.

Ítalska knattspyrnusambandið segist ætla að vera í sambandi við íslensk heilbrigðisyfirvöld og Knattspyrnusamband Evrópu til að meta næstu skref. Frekari upplýsingar um framhaldið munu koma fram seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×