Fótbolti

Barcelona hafði betur gegn Bayern í bar­áttunni um banda­ríska bak­vörðinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýjasti leikmaður Börsunga kemur frá Ajax en er Bandaríkjamaður.
Nýjasti leikmaður Börsunga kemur frá Ajax en er Bandaríkjamaður. EPA-EFE/GERMAN PARGA

Spænska stórveldið Barcelona staðfesti á samfélagsmiðlum sínum í dag að félagið hefði fest kaup á unga bakverðinum Sergiño Dest. Leikmaðurinn hefur verið mjög eftirsóttur og var til að mynda einnig orðaður við Bayern München.

Hinn 19 ára gamli Dest er frá Bandaríkjunum og hefur leikið þrjá A-landsleiki en hefur verið í herbúðum Ajax frá árinu 2012. Hann leikur nær eingöngu í stöðu hægri bakvarðar og var síðasta tímabil hans fyrsta í aðalliði Ajax.

Kaupverðið hljóðar upp á 21 milljón evra, þá gætu fimm milljónir evra til viðbótar bæst við ef Dest nær ákveðnum árangri í treyju Barcelona. Skrifaði hann undir fimm ára samning við Börsunga.

Nýráðinn þjálfari Barcelona – Hollendingurinn Ronald Koeman – vildi ólmur fá Dest í raðir félagsins og tókst það loks í dag. Þá reyndi Koeman einnig að sannfæra leikmanninn um að velja Holland frekar en Bandaríkin er hann var landsliðsþjálfari Hollands.

Börsungar seldu Nélson Semedo á dögunum til Wolves. Semedo er portúgalskur hægri bakvörður og á Dest einfaldlega að fylla upp í skarðið sem sala hans skyldi eftir sig. 

Sergi Roberto leikur í stöðu hægri bakvarðar í kvöld er Barcelona heimsækir Celta Vigo í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.30 og er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×