Innlent

Tjáði neyðar­línu að hann væri fangi fé­laga sinna og þeir ætluðu að meiða hann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til leitar að manninum um helgina.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til leitar að manninum um helgina. Vísir/Vilhelm

Maðurinn sem fannst eftir leit björgunarsveita í Þjórsárdal í gærmorgun hringdi á neyðarlínu um nóttina og sagði að ferðafélagar hans hefðu numið hann á brott og hygðust vinna honum mein. Ferðafélagar mannsins höfðu „aðra sögu að segja“ en mennirnir voru allir látnir lausir úr haldi lögreglu í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi. Þar segir að maðurinn hafi haft litlar skýringar á staðsetningu sinni í samtali við neyðarlínu og hann svo slitið símtalinu. Ekki náðist í hann aftur. Eftir greiningu á samskiptum við fjarskiptakerfi var ráðist í leit að manninum í Þjórsárdal.

Ferðafélagar mannsins fundust nokkru síðar á bensínlausum bíl. Ástand þeirra var „misgott“, að því er segir í tilkynningu lögreglu en ekki eru gefnar frekari skýringar á því. Þá hafi ferðafélagarnir haft „aðra sögu að segja“ en maðurinn, sem hafði haldið því fram að þeir hefðu numið sig á brott og ætluðu að meiða sig.

Vonskuveður var þarna um nóttina og voru björgunarsveitir, auk þyrlu Landhelgisgæslunnar, kallaðar út. Áhöfn þyrlunnar fann manninn austan við Fossá um klukkan 7:30 á sunnudagsmorgun, „fáklæddan en nokkuð hressan“.

Mennirnir voru allir fluttir á lögreglustöðina á Selfossi en fóru koll af kolli frjálsir ferða sinna eftir því sem leið á daginn. Sá síðasti yfirgaf stöðina um kvöldmatarleytið.

„Var þá komin nokkuð góð mynd á málið sem að lögum verður ekki fellt undir refsimál og verður rannsókn þess hætt,“ segir í tilkynningu lögreglu. Ekki náðist í lögreglu á Suðurlandi vegna málsins í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×