Fótbolti

Zlatan brjálaður út í sænska lands­liðs­þjálfarann: „Van­hæft fólk í röngum stöðum sem kæfa sænska boltann“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Janne Andersson hefur gert góða hluti með Svía frá því að hann tók við liðinu árið 2016.
Janne Andersson hefur gert góða hluti með Svía frá því að hann tók við liðinu árið 2016. vísir/getty

Zlatan Ibrahimovic, stórstjarna Svía, skaut heldur betur föstum skotum að þjálfara sænska landsliðsins í fótbolta, Janne Andersson, um helgina.

Zlatan er ekki sáttur hvernig Janne hefur notað Dejan Kulusevski, sem er á mála hjá Juventus, en hann byrjaði á bekknum gegn Frakklandi í Þjóðadeildinni um helgina.

Honum var skipt inn á þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og í viðtali eftir leikinn sagði Dejan að hann hafi verið í áfalli að starta á bekknum.

„Getum við ekki talað um þá sem spiluðu og voru góðir? Það er mikið skemmtilegra,“ sagði þjálfarinn er hann var spurður út í ummæli Dejan eftir leikinn.

Stærsta stjarna sænska boltans í gegnum tíðina, Zlatan, lét ekki sitt eftir liggja og tjáði sig um málið á Twitter-síðu sinni um helgina.

„Þvílíkt rugl. Enn ein sönnunin. Vanhæft fólk í röngum stöðum sem kæfa sænska boltann,“ skrifaði Zlatan á Twitter-síðu sína um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×