Enski boltinn

Liverpool með meira forskot en öll topplið hinna toppdeildanna til samans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool menn hafa unnið alla deildarleiki sína undanfarna hundrað daga. Það er nóg af stjörnuframmistöðum hjá liðinu eins og hjá þeim  Sadio Mane, Mohamed Salah, Trent Alexander-Arnold, Alisson Becker, Virgil van Dijk, Roberto Firmino og Georginio Wijnaldum.
Liverpool menn hafa unnið alla deildarleiki sína undanfarna hundrað daga. Það er nóg af stjörnuframmistöðum hjá liðinu eins og hjá þeim Sadio Mane, Mohamed Salah, Trent Alexander-Arnold, Alisson Becker, Virgil van Dijk, Roberto Firmino og Georginio Wijnaldum. Getty/Andrew Powell

Liverpool liðið hefur ekki tapað stigi í ensku úrvalsdeildinni í meira en hundrað daga eða síðan 20. október.

Á þessum 102 dögum frá 1-1 jafnteflinu á móti Manchester United á Old Trafford hefur Liverpool unnið fimmtán deildarleiki í röð og aukið forskot sitt úr sex stigum í nítján stig.

Það er athyglisvert að skoða yfirburði Liverpool miðað við stöðu toppliðanna í hinum stórum deildum evrópska fótboltans, nefnilega deildunum á Spáni, á Ítalíu, í Frakklandi og í Þýskalandi.



Minnstur er munurinn í Þýskalandi því þar hefur RB Leipzig eins stigs forskot á Bayern München og Borussia Mönchengladbach er síðan tveimur stigum á eftir toppliðinu. Leipzig liðið hefur tapað þremur leikjum og misst af stigum í sjö leikjum.

Real Madrid er með þriggja stiga forystu á Barcelona í spænsku deildinni en Sevilla er síðan átta stigum á eftir toppliðinu í þriðja sætinu. Real Madrid hefur aðeins tapað einum leik en er búið að gera sjö jafntefli.  

Juventus er með þriggja stiga forystu í ítölsku deildinni. Internazionale er næst og það eru síðan tvö stig niður í Lazio sem á leik inni á efstu tvö liðin. Juventus hefur tapað tveimur leikjum og misst af stigum í fimm leikjum.

Paris Saint Germain er með tíu stiga forystu á Olympique de Marseille í frönsku deildinni en vanalega eru úrslitin í Frakklandi ráðin löngu áður en í öðrum deildum. Nú er hins vegar meiri spenna þar en í titilbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Toppliðin í Þýskalandi, á Spáni, á Ítalíu og í Frakklandi eru samtals með sautján stiga forystu en Liverpool er eitt með nítján stiga forystu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×