Fótbolti

Fyrsti ráðherra Skotlands brjáluð út í leikmenn Aberdeen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nicola Sturgeon húðskammaði leikmenn Aberdeen fyrir gáleysi og dómgreindarbrest.
Nicola Sturgeon húðskammaði leikmenn Aberdeen fyrir gáleysi og dómgreindarbrest. getty/Andrew Milligan

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, er reið út í leikmenn skoska úrvalsdeildarliðsins Aberdeen.

Búið er að fresta leik Aberdeen og St Johnstone sem átti að fara fram á morgun eftir að tveir leikmenn Aberdeen greindust með kórónuveiruna. Sex aðrir leikmenn liðsins eru í sóttkví.

Eftir leik gegn Rangers á laugardaginn fóru nokkrir leikmenn Aberdeen á barinn. Talið er að þeir hafi smitast þar en smitum í Aberdeen hefur fjölgað mikið að undanförnu.

Sturgeon er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt leikmenn Aberdeen fyrir dómgreindarleysi. 

„Við gerum þær kröfur á almenning að hegða sér með ábyrgum hætti. Þegar fótboltamenn greinast með Covid, og ekki vegna óheppni heldur vegna brots á reglum, getum við ekki tekið minnstu áhættu að smitin dreifi sér í aðra hluta landsins,“ sagði Sturgeon.

„Ég er frekar brjáluð út af þessu því þetta hefði ekki átt að gerast. Ef reglum er ekki fylgt er fjandinn laus.“

Úr leik Aberdeen og Rangers í 1. umferð skosku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi.getty/Craig Williamson

Fyrst í stað var búist við því að leikur Aberdeen og St Johnstone myndi fara fram en honum var frestað að ósk skosku ríkisstjórnarinnar eftir fund íþrótta- og lýðheilsuráðherra Skotlands, Joe Fitzpatrick, skoska knattspyrnusambandsins og skosku deildarinnar.

Aberdeen á að mæta Hamilton Academical á miðvikudaginn í næstu viku og Celtic á sunnudeginum þar á eftir.

Ekki liggur fyrir hvort Aberdeen fái einhvers konar refsingu frá skoska knattspyrnusambandinu vegna hegðunar leikmanna liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×