Fótbolti

Arnór og Hörður voru einkennalausir

Sindri Sverrisson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon í leik með CSKA Moskvu.
Hörður Björgvin Magnússon í leik með CSKA Moskvu. VÍSIR/GETTY

Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmenn í fótbolta, eru nú í einangrun eftir að próf gaf til kynna að þeir gætu verið smitaðir af kórónuveirunni.

Arnór og Hörður eru leikmenn CSKA Moskvu og misstu af síðasta leik liðsins á leiktíðinni í Rússlandi á miðvikudag, eftir að grunur vaknaði um smit við reglubundnar prófanir.

Viktor Goncharenko, þjálfari CSKA, sagði við Sport24 í Rússlandi að tvíeykið hefði ekki fundið fyrir neinum einkennum þess að þeir væru með veiruna. Samkvæmt upplýsingum Vísis tóku Íslendingarnir fullan þátt í lokaæfingu fyrir leikinn, á þriðjudag.

Ekki liggur ljóst fyrir hve lengi Arnór og Hörður þurfa að vera í einangrun en útlit er fyrir að hið stutta sumarfrí sem þeir áttu fyrir höndum fari fyrir lítið. Áætlað er að ný leiktíð í rússnesku úrvalsdeildinni hefjist um miðjan ágúst.

Arnór Sigurðsson á ferðinni í leik með CSKA.VÍSIR/GETTY

Tengdar fréttir

Grunur um að Arnór og Hörður hafi smitast

Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon verða ekki með CSKA Moskvu í lokaumferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag vegna gruns um að þeir hafi smitast af kórónuveirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×