Fótbolti

Dómarinn lét alla varnarlínuna líta illa út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Urs Schnyder er FIFA dómari og er líka í frábæru formi. Hann er líka frár á fæti.
Urs Schnyder er FIFA dómari og er líka í frábæru formi. Hann er líka frár á fæti. Getty/Eurasia Sport



Knattspyrnudómarar þurfa að vera í góðu formi til að ráða við hraðann í fótboltaleikjum nútímans. Sumir dómaranna eru aftur á móti í það góðu formi, að þeir láta leikmennina sem þeir dæma hjá, líta illa út.

Gott dæmi um það að gott líkamlegt form dómarans kemur frekar illa út fyrir leikmenn var í leik í svissnesku deildinni um helgina.

Dómarinn Urs Schnyder var þá að dæma leik FC Thun og Neuchâtel Xamax en þarna voru að mætast tvö lið í neðri hlutanum.

Grégory Karlen, leikmaður Thun, slapp í gegn um vörn Neuchâtel Xamax í uppbótatíma leiksins og stakk alla varnarlínuna af. Sá eini sem fylgdi honum eitthvað eftir var dómarinn Urs Schnyder.

Það gerði Urs Schnyder þrátt fyrir að byrja langt á eftir varnarmönnum Neuchâtel Xamax.

Thun var þarna tveimur mörkum yfir og leikurinn að renna út en það breytir ekki því að varnarmennirnir litu ekki vel út í samanburði við dómarann sem var búinn að hlaupa allan leikinn eins og þeir.

Það má sjá þetta skondna atvik hér fyrir neðan.

Það þarf kannski ekki að koma mikið á óvart en lið Neuchâtel Xamax er í neðsta sæti svissnesku deildarinnar. Liðið hefur aðeins unnið 4 af 30 leikjum og er búið að fá á sig 55 mörk.

Urs Schnyder gæti svo sem alveg verið að spila sjálfur því hann er bara 34 ára gamall. Hann hefur þrátt fyrir ungan aldur dæmt mjög lengi en fyrsti leikur hans í svissnesku deildinni var tímabilið 2011-12.

Urs Schnyder varð síðan alþjóðlegur dómari árið 2018. Hann starfar sem leikfimikennari í menntaskóla í hlutastarfi á móti dómgæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×