Fótbolti

Ljótt brot á Arnóri: „Enginn annar hefði spilað með þessa verki“

Sindri Sverrisson skrifar
Milosevic steig harkalega á Arnór Ingva sem skiljanlega engdist um af kvölum og var haltur eftir brotið.
Milosevic steig harkalega á Arnór Ingva sem skiljanlega engdist um af kvölum og var haltur eftir brotið. Skjáskot/Max

Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason meiddist í ökkla eftir fólskulegt brot Alexanders Milosevic í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Þjálfari hans segir engan annan í deildinni svo harðan af sér að halda áfram leik eins og Arnór gerði.

Arnór Ingvi var á sínum stað í byrjunarliði Norrköping sem mætti AIK á heimavelli. Undir lok fyrri hálfleiks haltraði hann um völlinn eftir brot Milosevic sem svo sannarlega virtist verðskulda rautt spjald, en brotið má sjá hér að neðan.

„Ég fór í hann en mér fannst ég líka fara í boltann,“ sagði Milosevic við Max-sjónvarpsstöðina í hálfleik en sérfræðingar stöðvarinnar voru hins vegar sammála um að hann hefði átt að fá rauða spjaldið.

„Mér fannst þetta í raun vera eldrautt spjald,“ sagði Alexander Axén og Emelie Zaar Ölander tók í sama streng: „Það er enginn vafi um það að þetta átti að vera rautt spjald.“

Þrátt fyrir meiðslin hélt Arnór Ingvi áfram leik í seinni hálfleik en hann haltraði svo af velli á 64. mínútu, eftir annað högg. Þá var staðan orðin 1-0 og það urðu einnig lokatölurnar.

Andreas Alm, þjálfari Norrköping, hrósaði Arnóri eftir leikinn: „Það hefði enginn annar í þessari deild spilað áfram með þessa verki sem hann var með. Þetta er algjörlega einstakt.“

Arnór gat að lokum glaðst og fagnað því að með sigrinum er öruggt að Norrköping spilar áfram í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Sigurinn kom liðinu frá fallsvæðinu og upp í 11. sæti, á öruggan stað fyrir lokaumferð deildarinnar um næstu helgi.

Tæklingin frá Milosevic hefur vonandi engin áhrif á landsleikina sem svo taka við, en Ísland mætir Svartfjallalandi og Wales ytra í lokaleikjum riðlakeppni Þjóðadeildarinnar, 16. og 19. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×