Fótbolti

Lampard gæti orðið næsti stjóri Roma

Sindri Sverrisson skrifar
Frank Lampard var síðast á hliðarlínunni sem stjóri Chelsea, tímabundið vorið 2023.
Frank Lampard var síðast á hliðarlínunni sem stjóri Chelsea, tímabundið vorið 2023. Getty/Jonathan Moscrop

Eftir aðeins einn sigur í síðustu fimm deildarleikjum, og 3-2 tap gegn Verona um helgina, er útlit fyrir að ítalska knattspyrnufélagið Roma skipti um þjálfara í annað sinn á leiktíðinni.

Króatinn Ivan Juric tók við Roma um miðjan september, eftir að Daniele De Rossi var rekinn en De Rossi hafði tekið við liðinu í janúar síðastliðnum eftir brottrekstur José Mourinho.

Undir stjórn Juric hefur gengið ekki skánað nægilega mikið og Roma er núna í 11. sæti af tuttugu liðum ítölsku A-deildarinnar. Juric er þó enn þjálfari Roma en hinir bandarísku eigendur félagsins eru sagðir byrjaðir að skoða aðra möguleika.

La Gazzetta dello Sport segir að á meðal þeirra kosta sem Roma sé að skoða sé Frank Lampard, sem rekinn var frá Everton í janúar 2023 eftir að hafa stýrt liðinu í tæpt ár.

Lampard hefur verið án starfs síðan í maí í fyrra þegar hann stýrði Chelsea í skamman tíma eftir brottrekstur Grahams Potter. Hann stýrði áður Chelsea á árunum 2019-2021 eftir að hafa byrjað stjóraferilinn vel hjá Derby.

Paulo Sousa er þó sagður líklegasti kandídatinn. Portúgalinn stýrir í dag Shabab Al Ahli í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en var áður hjá Salernitana á Ítalíu og hefur einnig stýrt þar Fiorentina á árunum 2015-2017.

Roma þyrfti hins vegar að greiða ákveðna upphæð til að leysa Sousa undan samningi.

Roberto Mancini og Claudio Ranieri eru einnig nefndir sem mögulegir kostir en Ranieri hefur tvívegis áður verið ráðinn þjálfari Roma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×