Fótbolti

Dagskráin í dag: Risaslagur á Ítalíu, Lengjudeildin og enska B-deildin

Ísak Hallmundarson skrifar
Cristiano Ronaldo og félagar mæta Zlatan og AC Milan í stórveldaslag í ítalska boltanum.
Cristiano Ronaldo og félagar mæta Zlatan og AC Milan í stórveldaslag í ítalska boltanum. vísir/getty

Það eru þrjár beinar útsendingar á sportrásum Stöðvar 2 í dag. Stórveldin AC Milan og Juventus mætast í ítölsku úrvalsdeildinni, Leiknir R. og ÍBV mætast í Lengjudeildinni og Nottingham Forest og Fulham mætast í toppslag í næstefstu deild á Englandi.

Þetta byrjar kl. 15:55 þegar Nottingham Forest og Fulham mætast í Championship-deildinni á Englandi. Forest eru í 5. sæti og Fulham í 4. sæti en leikurinn er mikilvægur fyrir bæði lið í baráttunni um sæti í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn er sýndur í beinni á Stöð 2 Sport 2.

Kl. 17:50 hefst bein útsending frá leik Leiknis R. og ÍBV í Lengjudeildinni á Stöð 2 Sport. Bæði þessi lið ætla sér upp í Pepsi Max deildina og má búast við hörkuleik. ÍBV eru með fullt hús stiga og deila toppsætinu með Fram en Leiknir hafa unnið sér inn sjö stig eftir þrjár umferðir, tveimur stigum minna en Eyjamenn. Leikurinn er í opinni dagskrá.

AC Milan tekur síðan á móti Juventus í leik sem sýndur er í beinni á Stöð 2 Sport 2 kl. 19:35. Milan hefur verið á góðu skriði undanfarið og unnu Lazio sannfærandi í síðasta leik og sömu sögu má segja af Juventus sem hafa unnið alla sína leiki eftir að boltinn byrjaði að rúlla aftur í júní. Juventus er á toppi deildarinnar með sjö stiga forskot á Lazio á meðan Milan er í 6. sæti og eru í harðri baráttu um sæti í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×