Fótbolti

PSG greiðir sjö og hálfan milljarð fyrir Icardi en hefði greitt meira fyrir faraldur

Sindri Sverrisson skrifar
Mauro Icardi og Kylian Mbappé fagna marki.
Mauro Icardi og Kylian Mbappé fagna marki. VÍSIR/GETTY

Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain eru búnir að tryggja sér áframhaldandi veru argentínska markaskorarans Mauro Icardi sem var að láni hjá félaginu í vetur.

PSG mun greiða Inter Mílanó 50 milljónir evra fyrir leikmanninn, jafnvirði sjö og hálfs milljarðs króna, og við það bætast sjö milljónir evra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Samkvæmt frétt The Guardian um málið sýnir kaupverðið þau áhrif sem kórónuveirufaraldurinn gæti haft á verð knattspyrnumanna í sumar. PSG hafi verið búið að samþykkja að kaupa Icardi fyrir talsvert hærri upphæð, eða 70 milljónir evra.

Icardi kom til Inter árið 2013 og var jafn Luca Toni sem markahæsti maður ítölsku A-deildarinnar árið 2015 með 22 mörk. Hann féll hins vegar í ónáð hjá forráðamönnum og stuðningsmönnum félagsins og því var aldrei líklegt að hann kæmi aftur eftir lánsdvölina hjá PSG.

Icardi skoraði 12 mörk í 20 leikjum í frönsku 1. deildinni í vetur og fimm mörk í aðeins sex leikjum í Meistaradeild Evrópu. PSG sló Dortmund út úr Meistaradeildinni og er komið í 8-liða úrslit, og liðið var krýnt Frakklandsmeistari eftir að tímabilið í Frakklandi var blásið af í vor, fyrr en ella vegna faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×