Erlent

Ætlar að skrif­a und­ir for­set­a­til­skip­un um sam­fé­lags­miðl­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Búist er við því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, muni í dag skrifa undir forsetatilskipun sem koma á niður á fyrirtækjum sem reka samfélagsmiðla. Fyrirtækjum eins og Twitter, Facebook og Alphabet, móðurfélag Google. Samkvæmt fjölmiðlum ytra felur tilskipunin í sér endurskoðun á lögum sem koma í veg fyrir að fyrirtækin séu ábyrg fyrir það sem notendur setja á samfélagsmiðlana.

Í gær hótaði Trump því að loka Twitter og Facebook og sakaði hann fyrirtækin um að þagga niður í röddum íhaldsmanna. Tilefni þeirrar hótunar var að Twitter hafði sett fyrirvara við tíst forsetans, þar sem hann sagði ósannindi um meint kosningasvik.

Forsetinn og stuðningsmenn hans brugðust reiðir við þessu og saka forsvarsmenn Twitter um að hafa ritskoðað forsetann.

Í frétt Reuters segir að samkvæmt tilskipuninni eigi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna að mynda starfshóp sem fara eigi yfir lög einstakra ríkja varðandi starfsemi samfélagsmiðla og athuga hvort þeim sé framfylgt.

Þar að auki á Hvíta húsið að stofna starfshóp sem þróa á tól til að auðvelda borgurum að kvarta yfir „ritskoðun“ á internetinu.

Tilskipun Trump er einnig sögð fela í sér að Federal Trade Commision, nokkurs konar viðskiptaeftirlit Bandaríkjanna, á að kanna hvort ritstjórnarstefnur samfélagsmiðlanna sé í samræmi við yfirlýsingar fyrirtækjanna um hlutleysi.

Samkvæmt Washington Post mun tilskipunin einnig þvinga forsvarsmenn ríkisstofnana til að endurskoða hve miklu er varið í auglýsingar á samfélagsmiðlum.

Tilskipunin er ekki fullkláruð og gæti tekið breytingum en eins og áður segir er búist við því að Trump muni skrifa undir hana í dag. Í gærkvöldi tísti forsetinn og sakaði samfélagsmiðlafyrirtæki um að hafa reynt að koma í veg fyrir kjör hans árið 2016. Svipað væri upp á teningnum núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×