Handbolti

Virði leikmanna hrunið og spænska deildin gæti orðið áhugamannadeild

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Pálmarsson leikur með Barcelona en Arnar Freyr, umboðsmaður Arons, óttast að spænska deildin gæti breyst í áhugamannadeild.
Aron Pálmarsson leikur með Barcelona en Arnar Freyr, umboðsmaður Arons, óttast að spænska deildin gæti breyst í áhugamannadeild. VÍSIR/GETTY

Arnar Freyr Theodórsson, umboðsmaður sumra af bestu handboltamönnum heims, segir markaðsvirði leikmanna hafa farið hratt niður á við. Félögin leiti nú að ungum og efnilegum leikmönnum og haldi þeim sem fyrir séu.

Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins bitna mjög á íþróttafélögum enda tekjur af miðasölu engar á meðan á samkomubanni stendur, og styrktaraðilar halda að sér höndum.

„Það er búið að vera mjög erfitt að sinna þeim hluta af mínu starfi að finna lið fyrir leikmenn. Menn hafa verið hræddir við ástandið og ekki viljað skuldbinda sig fyrir framtíðina þegar staðan er svona óljós. Ég er því með smááhyggjur af því hvernig þetta mun halda áfram, þrátt fyrir að ég sé í eðli mínu mjög jákvæður maður,“ sagði Arnar Freyr við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2. Viðtalið mátti einnig sjá í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport.

Arnar segir félög í Evrópu geta verið fljót að taka við sér þegar hægt verði að hleypa áhorfendum á leiki á nýjan leik, þar sem að tekjustreymi handboltafélaganna sé háðara miðasölu en til dæmis í fótbolta.

„Þetta er búið að vera mjög erfitt en Skandinavía er hins vegar betur í stakk búin til að takast á við þetta áfall en til að mynda Frakkland og Spánn. Ég er mjög hræddur um spænsku deildina. Hún gæti farið mjög illa út úr þessu og mögulega bara orðið áhugamannadeild,“ segir Arnar Freyr. Aron Pálmarsson, leikmaður Barcelona, er einn umbjóðenda hans.

Mjög erfið staða fyrir samningslausa leikmenn

Aðspurður um markaðinn á Íslandi segir umboðsmaðurinn:

„Staðan er mjög erfið fyrir leikmenn sem eru samningslausir hér. Markaðsvirði þeirra er búið að fara hratt niður á við þar sem að félögin hafa bara úr minna að moða. Þó eru enn einhver lið sem hafa ágætis fjármagn, sem betur fer, en ég reikna ekki með miklum félagaskiptum í sumar. Ég held að félögin leiti sér mikið frekar að yngri og efnilegri leikmönnum, og reiði sig á þá sem eru fyrir.“

Leikmenn sem ætla að snúa heim í sumar fá sömuleiðis ekki eins spennandi tilboð og þeir hefðu fengið ef kórónveirufaraldurinn hefði ekki sett allt úr skorðum:

„Þeir finna sér lið en ég er ekki viss um að það verði á þeim fjárhagsforsendum sem þeir gerðu ráð fyrir í upphafi. Ég er nokkuð viss um að nokkrir leikmenn sem eru að koma heim muni fá töluvert lægri samninga en þeir hefðu fengið ef að ástandið væri skárra.“

Klippa: Sportpakkinn - Virði handboltamanna hrunið

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×