Fótbolti

Gullmoli dagsins: Sveppi heimsótti Eið á Camp Nou og sendi Liverpool-mönnum tóninn

Sindri Sverrisson skrifar
Sveppi og Eiður Smári Guðjohnsen í góðum gír á Camp Nou um árið.
Sveppi og Eiður Smári Guðjohnsen í góðum gír á Camp Nou um árið. VÍSIR/GETTY

„Gullmoli dagsins“ er dagskrárliður í Sportinu í dag þar sem rifjuð eru upp skemmtileg atriði úr sögu íþróttastöðva Stöðvar 2. Í dag var sýnd heimsókn Sveppa til Eiðs Smára Guðjohnsen vorið 2007.

Sveppi heimsótti Eið á Camp Nou þar sem Eiður hafði þá lokið sinni fyrstu leiktíð með stórveldi Barcelona, en innslagið sem sjá má hér að neðan var fyrst sýnt í fótboltaþætti Guðna Bergssonar sem nú er formaður KSÍ. Sveppi spurði Eið meðal annars út í Guðna en þeir léku saman hjá Bolton snemma á ferli Eiðs.

Eiður og félagar í Barcelona höfðu fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu gegn Liverpool á leiktíðinni og ljóst að Liverpool-liðið var honum ekki kært. Sveppi fékk Eið til að segja að hann myndi aldrei ganga til liðs við Liverpool og Eiður kvaðst reikna með sigri AC Milan gegn Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, sem varð raunin. 

Aðspurður hvort hann gæti verið á förum frá Barcelona, hugsanlega til West Ham, sagðist Eiður ætla að halda kyrru fyrir og tveimur árum síðar vann hann Meistaradeildina með Börsungum.

Klippa: Gullmoli dagsins: Eiður Smári og Sveppi á Camp Nou

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×