Viðskipti innlent

Evran kosti áfram 160 krónur á næsta ári

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Seðlabankinn framkvæmir reglulega kannanir meðal stjórnenda á skuldabréfamarkaði. Hér ber að líta höfuðstöðvar Seðlabankans við Kalkofnsveg.
Seðlabankinn framkvæmir reglulega kannanir meðal stjórnenda á skuldabréfamarkaði. Hér ber að líta höfuðstöðvar Seðlabankans við Kalkofnsveg. Vísir/vilhelm

Ekki er að vænta frekari sveifla á gengi krónunnar í ár gangi spár 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði eftir. Þeir áætla að krónan muni ekki vekjast að ráði á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 160 krónur eftir eitt ár.

Gengi krónunnar hefur veikst gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum samhliða kórónuveirufaraldri, samkomubanni og fækkun ferðamanna. Í upphafi árs fékkst ein evra fyrir 137 krónur en í dag þarf að reiða fram 158 krónur fyrir evruna.

Seðlabanki Íslands kannaði hverjar væntingarnar eru um efnahagsþróun á næstunni meðal banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar.

Stýrivextir lækki en hækki svo aftur

Stjórnendur þeirra segjast gera ráð fyrir verðbólga haldist við verðbólgumarkmið Seðlabankans til næstu tíu ára, hún verði á bilinu 2,2 til 2,5 prósent. Þeir eiga aukinheldur von á að stýrivextir lækki um 0,5 prósentur í sumar og verði þar af leiðandi 1,25 prósent á öðrum ársfjórðungi. 

Eftir tvö ár verði þó búið að hækka stýrivexti aftur í 1,75 prósent. Næstum 70 prósent aðspurðra töldu taumhald peningastefnunnar vera of þétt um þessar mundir, að sögn Seðlabankans.

Nánar má fræðast um svör markaðsaðila á skuldabréfamarkaði hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×