Handbolti

Handboltaparið tók ákvörðunina í gærkvöldi að skella sér norður

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rut og Ólafur í viðtalinu í dag. Rut er uppalin í HK en Ólafur í FH.
Rut og Ólafur í viðtalinu í dag. Rut er uppalin í HK en Ólafur í FH. vísir/s2s

Eins og Vísir greindi frá í morgun er handboltaparið Ólafur Gústafsson og Rut Jónsdóttir á leið norður yfir heiðar þar sem Ólafur mun spila fyrir KA og Rut fyrir KA/Þór. Þau segjast hafa tekið ákvörðun um þetta í gærkvöldi.

Rut kemur frá Team Esbjerg og Ólafur frá Kolding en þau hafa leikið bæði erlendis undanfarin ár og Rut lengur en Ólafur. Parið sér tækifæri fyrir norðan heiða en það var ekki bara KA og KA/Þór sem komu til greina.

„Við vorum smá óviss og vorum að skoða möguleikana en svo leist okkur mjög vel á þetta svo við ákváðum að taka þessa ákvörðun,“ sagði Rut. Ólafur segir að aðdragandinn hafi ekki verið langur.

„Það er ekki langur aðdragandi að þessu, alls ekki. Við tókum lokaákvörðun í gærkvöldi. Þetta er búið að gerast mjög hratt.“

„Við erum van að vera bara við sem fjölskylda. Við erum bæði í handbolta með barn svo þetta er frábær staður fyrir okkur. Við skoðuðum aðra möguleika en við vildum ekki hoppa á hvað sem er. Þetta var góð niðurstaða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×