Innlent

Tug­milljóna­tjón Sam­herja í ó­­veðrinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Húsnæði Samherja á Dalvík.
Húsnæði Samherja á Dalvík. Vísir/Sigurjón

Óveðrið sem gekk yfir landið fyrr í mánuðinum olli milljónatjóni hjá starfsemi Samherja á Norðurlandi. Þetta kemur fram í Þorláksmessupistli Björgólfs Jóhannssonar starfandi forstjóra Samherja sem hann birti á vef fyrirtækisins í dag.

Samherji er með umfangsmikla starfsemi á Norðurlandi en Björgólfur segir að rafmagnsleysið í landshlutanum hafi orðið þess valdandi að vinnsla Samherja á Dalvík hafi legið niðri í fimm daga.

Tjón vegna þess hlaupi á tugum milljóna króna. Þó hafi tekist að afstýra tjóni vegna hráefnis og hluti starfsmanna á Dalvík hafi fært sig yfir til Akureyrar tímabundið. Vinnsla hófst svo aftur á Dalvík á þriðjudag.

Þá hafi blessunarlega ekki orðið tjón á tækjabúnaði og skipum. Björgólfur þakkar viðbragsaðilum fyrir starf sitt í rafmagnsleysinu, sem og starfsmönnum Samherja sem færðu sig tímabundið til Akureyrar.

Viðgerðum á Dalvíkurlínu lauk loks á miðvikudaginn síðasta en hún skemmdist mikið í aftakaveðrinu sem gekk yfir landið. Varðskipið Þór var sent til Dalvíkur til að sjá bænum tímabundið fyrir rafmagni og var ástandið einnig afar slæmt víðar í landshlutanum. Tjón á Norðurlandi vegna óveðursins er talið hlaupa á milljörðum.


Tengdar fréttir

Óboðlegt að íbúar verði innlyksa án rafmagns og hita sólarhringum saman

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, eða SSNV, segir það ástand sem hafi skapast í landshlutanum í óveðrinu fyrr í mánuðinum, vera óviðunandi. Stjórnvöld, stofnanir og aðrir sem eigi hlut að máli verði að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja ástand sem þetta skapist ekki aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×