Enski boltinn

Ensku blöðin fjalla um möguleg kaup Man. United á Erling Håland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hvar endar Erling Braut Håland?
Hvar endar Erling Braut Håland? Getty/Michael Regan

Allt bendir til þess að Red Bull Salzburg selji norska framherjann Erling Braut Håland í janúar og hann er stöðugt orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United. Ensku blöðin fjölluðu mikið um þessi hugsanlegu kaup í morgun.

Metro slær því upp að Erling Braut Håland vilji koma til Manchester United en aðeins ef að stjórnarformaðurinn Ed Wood fullvissi hann um það að framtíð knattspyrnstjórans Ole Gunnars Solskjær sé tryggð. Ole Gunnar var orðinn valtur í sessi á dögunum en sigrar á Tottenham og Manchester City gáfu honum meiri starfsfrið.



Daily Mail og Sun segja að Manchester United sé bjartsýnt á að geta keypt Erling Braut Håland fyrir 76 milljónir punda í janúar ef að félagið er síðan tilbúið að lána hann aftur til Red Bull Salzburg fram á vor.

Stuðningsmenn Manchester United eru örugglega ekki of ánægðir með slíkt fyrirkomulag enda þarf United á Håland að halda sem fyrst þar sem breiddin er ekki mikil hjá liðinu hvað varðar framherja.



Kicker segir einnig frá því að Leipzig sé búið að staðfesta að félagið hafi gert tilboð í norska framherjann. Þar kemur fram að það sé hægt að kaupa samning Håland við Red Bull Salzburg fyrir tuttugu milljónir punda en að Salzburg vilji fá nær 60 milljónum punda fyrir hann og að austurríska félagið vonist eftir því að mörg lið bjóði í hann.

Express heldur því fram að Erling Braut Håland sjálfur hafi óskað eftir sölu í janúar og að fjögur félög ætli að bjóða í hann. Håland á jafnframt að hafa sagt United að hann vilji vera fastamaður í liðinu eigi hann að koma þangað.



Daily Mail segir frá stríðni Erling Braut Håland sem birti mynd af sér að árita Manchester United treyju en seinna komu inn myndir af honum að árita treyjur Leeds, Napoli og RB Salzburg.



Fabrizio Romano er oft fyrstur með fréttirnar og hann telur að Manchester United, Juventus, Leipzig og Borussia Dortmund hafi öll boðið í Norðmanninn en að Erling Braut Håland ætli að ákveða sig með því að ræða við fjölskyldu sína og umboðsmanninn Raiola.

Það eru ekki margir dagar í að glugginn opnist og það verður fróðlegt að sjá hvaða treyju Erling Braut Håland  klæðist á seinni hluta tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×