Fótbolti

Ákvörðun um leikstað í umspilinu þarf að liggja fyrir 20. desember 

Ísland mætir Ungverjalandi í umspilinu.
Ísland mætir Ungverjalandi í umspilinu. fréttablaðið/getty
Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, þarf eins og knattspyrnusambönd sem eiga lið í umspili um laus sæti í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu karla að staðfesta heimavöll sinn í umspilsleikjum til evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, fyrir 20. desember næstkomandi.

Íslenskir knattspyrnuáhugamenn hafa haft af því áhyggjur að Laugardalsvöllur, sem er ekki upphitaður, verði ekki leikfær þegar leikurinn við Rúmena í undanúrslitum umspilsins fer fram 26. mars á næsta ári.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að um staðlaða dagsetningu sé að ræða og tengist því ekkert hvort að um sé að ræða leikvanga þar sem mögulegt sé að leikvöllur verði leikfær eður ei á leikdegi.

Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, staðfesti það í samtali við Fréttablaðið að tekin hefði verið ákvörðun um að Laugardalsvöllur verði skráður sem heimavöllur íslenska liðsins í þessum leik og að þeirri ákvörðun verði ekki haggað.

Þegar Ísland spilaði við Króatíu í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu 2014 um miðjan nóvembermánuð árið 2013 var fenginn hitadúkur til þess að vernda Laugardalsvöllinn fyrir frosti og líklegt er að farið verði í einhverjar aðgerðir í þeim dúr þegar nær dregur leiknum mikilvæga.

Það er vonandi að aðstæður verði ekki jafn óboðlegar og í leik Íslands og Írlands sem leikinn var í umspili fyrir Evrópumót kvenna árið 2009 í lok október árið 2008. Þá var Laugardalsvöllur líkari skautasvelli en knattspyrnuvelli og leikmenn runnu til á vellinum eins og íshokkíleikmenn. Ísland vann þann leik og komst á EM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×