Fótbolti

Casillas búinn að taka skóna af hillunni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Iker Casillas
Iker Casillas vísir/getty
Endurhæfing spænsku goðsagnarinnar Iker Casillas gengur vel en hann er að koma til baka eftir að hafa fengið hjartaáfall á æfingu með Porto í maí á þessu ári.



Casillas birti færslu á Twitter reikningi sínum í gær sem sjá má neðst í fréttinni en þar má sjá að hann hafi nýlokið æfingu. Við myndina skrifar Casillas: „Í 6 mánuði og þrjá daga voru þeir á hillunni.“

Í kjölfar hjartaáfallsins var talið ólíklegt að þessi 38 ára gamli markvörður myndi snúa aftur á knattspyrnuvöllinn en Casillas hefur sjálfur sagt að hann vilji hætta á sínum forsendum. Hann er skráður í leikmannahóp Porto í portúgölsku úrvalsdeildinni og gæti því snúið aftur í markið á þessari leiktíð.

Casillas er í guðatölu á Spáni og víðar og er einn af dáðustu sonum Real Madrid enda næstleikjahæsti leikmaður í sögu spænska stórveldisins með 725 leiki á árunum 1999-2015.

Hann er sömuleiðis næstleikjahæsti landsliðsmaður Spánar og varði mark landsliðsins á gullaldarárum þess frá 2008-2012 þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar í tvígang auk þess að verða Heimsmeistarar 2010.


Tengdar fréttir

Casillas segist ekki vera hættur

Iker Casillas er ekki hættur í fótbolta. Fréttir um það að hann ætli sér að leggja hanskana á hilluna eru rangar segir Spánverjinn.

Casillas fer í þjálfarateymi Porto

Spænski markvörðurinn Iker Casillas verður hluti af þjálfarateymi portúgalska félagsins Porto á meðan hann heldur áfram endurhæfingu sinni eftir hjartaáfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×