Innlent

Sökuð um að hafa gengið í skrokk á móður meðan þrjú börn hennar horfðu á

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Fréttablaðið/Hari
Karl og kona hafa verið ákærð af héraðssaksóknara fyrir ofbeldisbrot og brot gegn barnaverndarlögum gagnvart barnsmóður karlsins. Barnsmóðirin mátti þola spörk í höfuð þar sem hún lá liggjandi á jörðinni en þrjú börn hennar og sambýlismaður horfðu á að því er fram kemur í ákæru.

Brotin áttu sér stað utandyra á ótilgreindum stað á Vesturlandi í desember fyrir tæpu ári. 

Börnin horfðu á

Er konan ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung en karlinn fyrir brot í nánu sambandi. Bæði sæta ákæru fyrir brot gegn börnum með því að hafa veist að barnsmóður karlsins með ofbeldi og nauðung, tekið af henni spjaldtölvu og kýlt hana ítrekað í höfuð og líkama.

Spörkuðu þau og stöppuðu ítrekað á líkama hennar og sparkaði konan að minnsta kosti einu sinni í höfuð barnsmóðurinnar.

Með þessari atlögu var lífi, heilsu og velferð barnsmóðurinnar ógnað á alvarlegan hátt að því er segir í ákæru. Atlagan hafi verið sérstaklega sársaukafull og meiðandi og vanvirðandi, ógnandi og ruddalega gagnvart þremur börnum barnsmóðurinnar sem horfðu á ásamt sambýlismanni hennar. 



Neita sök

Hlaut barnsmóðirin kúlu hægra megin á hnakka, mar á báðum upphandleggjum. hrufl á vinstri framhandlegg og báðum hnjám, klórför á hægri framhandlegg, litlar rispur víðs vegar um líkama, þreifieymsli í hálshrygg og verki við djúpa innöndun í brjóstkassa.

Brot fólksins varða allt að sextán ára fangelsi. Þá er gerð krafa um eina milljón króna í miskabætur til barnsmóðurinnar vegna árásarinnar.

Málið var þingfest við Héraðsdóm Vesturlands í síðustu viku. Karlinn og konan neituðu sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×