Skoðun

Að skilja glæpinn

Þóra Kristín Þórsdóttir skrifar
(**VV** lýsing á nauðgun, dómsúrskurður)

Dómari metur hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn (Lög um meðferð sakamála, 109. grein).

Okkur er sagt að dómarar séu hlutlausir. Okkur er sagt að þessi svokallaði skynsamlegi vafi, sem sekt fólks þarf að vera hafið yfir svo hægt sé að dæma það í réttarsal, sé hlutlaust mat á sönnunargögnum. Og það þrátt fyrir að allar greiningar á dómum sýni æpandi misræmi milli líkna á sakfellingu eftir brotaflokkum og að innan brotaflokka hafi ýmsir bakgrunnsþættir ákærða og brotaþola áhrif á líkur á sakfellingu. Hvað varðar kynferðisbrot eru t.d. erlendir gerendur líklegri til að verða sakfelldir en hérlendir, karlar sem brjóta á körlum mun líklegri til að fá á sig dóm en karlar sem brjóta á konum, og svo má auðvitað greina áhrif stéttarstöðu, kynhneigðar, og þess hvort þolandi er fötluð eða ekki.  Lagskipting samfélagsins hefur auðvitað líka áhrif inni í réttarsal, sem er ástæða þess að það er svo mikilvægt að dómarar séu sem fjölbreyttastir.  En aðalatriðið er að dómari hafi þekkingu til að meta sönnunargögnin. Þetta er forsenda sem því miður einatt bregst þegar um er að ræða kynferðisbrot.

Til að sjá þennan mun er handhægt að skoða forsendur sem gefnar eru þegar um er að ræða kynferðisbrot sem þættu furðulegar ef um væri að ræða annars konar brot. Fyrir það fyrsta er það samþykkið. Þegar karl kýlir annan karl veltir dómari ekki fyrir sér hvort samþykki hafi legið fyrir, hvort mögulega hafi A og B farið í gamnislag einhvern tímann áður (eða jafnvel hvort þolandi hafi einhvern tímann farið í gamnislag yfir höfuð). Eða kannski jafnvel er brotaþoli svona hrifinn af sársauka? Þegar karl er rændur heyrast ekki heldur vangaveltur um klæðnað og hegðun. Ef kynferðisbrotadómar væru viðmiðið væri nefnilega rakið að spyrja sig hvort þolandi hafi mögulega einhvern veginn gert sig að skotmarki, sem hann auðvitað ber ábyrgð á, svo sem með því að vera í dýrum fötum, keyra dýran bíl, eða taka þátt í umræðum um dýrar græjur á fésbókinni. Þá er það hegðun þolanda eftir brot. Þegar karl kýlir annan karl er ekki mikið gætt að því hvort þolandi hafi verið sannfærandi, sem þolandi, eftir árásina. Ekki heldur ef karl er rændur eða á hann er keyrt. Atburðurinn sjálfur er nefnilega ekki vafamál, og þess vegna þarf brotaþoli þessarra tegunda glæpa ekki að sanna fyrir einum né neinum að hann sé þolandi.

Það var vegna þessarra sérstöðu kynferðisbrotadóma sem mörg okkar glöddust innilega þegar skilgreiningu á nauðgun var breytt í hegningarlögunum í fyrra. Áður taldist sá hafa gerst sekur um nauðgun sem að hefði „samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung“ en með breytingunni varð það að einstaklingi sem hefði „samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans“ og er sérstaklega tekið fram að samþykkið þurfi að vera veitt af fúsum og frjálsum vilja. Hins vegar er enn gerð krafa um ásetning geranda, nauðgun er nefnilega glæpur sem ekki er hægt að fremja af gáleysi, þannig að geranda þarf að vera ljóst að samþykki liggi ekki fyrir. Hann þarf þó ekki að sýna fram á samþykkið sjálft, heldur aðeins að segja að hann hafi talið að það lægi fyrir. Og ef ekkert er fyrir hendi annað um sekt geranda en orð þolanda er „skynsamlegur vafi“ á sektinni.  

En yfirleitt fara kynferðisbrotamál ekki fyrir dóm ef aðeins er um að ræða orð gegn orði og það er þarna sem þekking dómara á eðli glæpsins er svo mikilvæg. Það eru nefnilega alls konar fleiri gögn sem sýna sekt ákærða: Áverkar á þolanda, vottorð sálfræðinga um áfallastreitu, vitni að ástandi þolanda eftir ofbeldið og fleira og fleira. Og auðvitað sú mikilvæga staðreynd að þolandi lagði á sig að kæra.

Fyrir viku staðfestu Davíð Þór Björgvinsson, Jóhannes Sigurðsson og  Þorgeir Ingi Njálsson Landsréttardómarar sýknudóm í nauðgunarmáli (já, þolandi ekki bara kærði og fór í gegnum Héraðsdóm Suðurlands, heldur áfrýjaði til Landsréttar. Þvílíkur styrkur!)  sem er algjörlega klassískt dæmi um það hvernig dómskerfið tekur á nauðgunarmálum. Um er að ræða dóm 42/2019, þar sem staðfestur er dómur Ragnheiðar Thorlacius héraðsdómara frá 12.desember 2018.  Ákærði, A, var kærður fyrir nauðgun.  Umræddur atburður á sér stað á landsbyggðinni þar sem hópur vina og fyrrum vinnufélaga er að drekka. Leiðir skiljast á einhverjum tímapunkti og þá eru ákærði og brotaþoli ein. Að sögn B beitir A hana ofbeldi og nær fram vilja sínum og segir á eftir „þú lofar að vera ekki  óvinur minn“ . Eftir (meinta) nauðgun hittir þolandi nokkra úr hópnum svo vitni er að ástandi hennar.

Þolandi ekki alvöru

Eitt af hinum klassísku þemum í kynferðisbrotadómum er að þolandi er einhvern veginn ekki alvöru. Eins og segir í dómi Héraðsdóms:„Brotaþoli  kvaðst,  eftir  að  ákærði hafi lokið sér af, klætt sig og leitað að símanum sínum í [...] en ekki fundið hann. Hún hafi  því  farið á  eftir  ákærða  út í bíl og beðið hann um að hringja  í símann sinn til að auðvelda leit að honum. Staðfesti ákærði framangreint í skýrslu sinni fyrir dómi. Í framhaldinu, þ.e. eftir að vitnið D yfirgaf [...], kvaðst brotaþoli hafa farið á bensínstöð og keypt bensín og sígarettur. Framburður brotaþola að þessu leyti er að mati dómsins í nokkru ósamræmi við lýsingu brotaþola fyrir dómi á líðan sinni, þ.e. að henni hafi liðið rosalega illa, verið bjargarlaus og ekkert geta gert“ (skáletrun mín). 

Þá er nokkrum sinnum vísað í orð ákærða um þolanda, sem eru þess eðlis að kasta rýrð á trúverðugleika sögu þolanda, án þess að þau orð séu að nokkru sannreynd. Til dæmis, í samhengi við það hvort um hafi verið að ræða árás: „Tók  ákærði  fram  að brotaþoli  væri hávaxin og vel á sig komin líkamlega“ (skáletrun mín).

 

Líkamlegir áverkar ekki alvöru

Þolendur nauðgana frjósa oft í aðstæðunum og því eru litlir líkamlegir áverkar. Svo var þó ekki í þessu máli.  Í skýrslu læknisins fyrir dómi kemur fram að þolandi er aum á kynfærum og er mynd af nýjum stórum marblett meðal gagna. Þegar ákærði er spurður um þessa áverka er haft eftir honum : „Svaraði hann því til að þetta gæti hafa verið eftir hann, þ.e. ákærða, maka brotaþola eða [...], og vísaði ákærði þar til þess að brotaþoli stundaði [...]“. Þessi orð eru ekki sannreynd, enda ætti ekki að skipta máli hvernig kynhegðun þolanda almennt er háttað. Hins vegar er þetta sennilega tekið fram til að undirbyggja þá ályktun dómara að ekki var „um eiginlega áverka að ræða á spöng brotaþola heldur eymsli sem óvarlegt er að fullyrða að hafi komið af völdum ákærða“. Við það bætist að einhvers staðar „í kringum“ umræddan marblett má á myndinni sjá aðra eldri marbletti. 



Vitnin ekki alvöru

Þolandi hitti nokkra einstaklinga rétt eftir (meinta) nauðgun, sem lýsa henni sem í áfalli. Fyrir það fyrsta er það vinur ákærða, sem að sögn þolanda spyr hana hvort hún hafi verið að ríða ákærða. Þolandi bregst ókvæða við. Í öðru lagi eru það vinir og maki þolanda. Þolandi er spurð hvers vegna hún leitaði ekki til vinar ákærða og getur ekki svarað því. Þetta er sérstaklega tekið fram í dómnum. Þar með fór, sennilega, eini möguleiki þolanda á því að leita til vitnis sem dómari teldi marktækt því vitnisburðum hinna er hafnað á þeim forsendum að vera henni tengd. Þá vinnur það einnig gegn þeim, vinum og maka þolanda, að bera augljóslega kala til ákærða. 



Sálrænir áverkar - er það til?

Í skýrslu læknisins fyrir dómi kemur fram að þolandi var skýr í frásögn, ekki með „kreppuviðbrögð“ en hins vegar „skjálfti,     hrollur,     vöðvaspenna/stíf/ur, köfnunartilfinning/andþrengsli,  ógleði/uppköst,  þolir  ekki  snertingu“.  Þá liggur fyrir vottorð sálfræðings. Þar  kemur fram „að sálræn einkenni brotaþola í kjölfar atburðarins samsvari einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem  hefur  upplifað  alvarleg  áföll  eins  og  líkamsárás,  nauðgun,  stórslys  eða  hamfarir.“ Þolandi hafi fyrst verið með  truflandi  áfallastreitueinkenni  en þau einkenni hafi minnkað með tímanum og hún sé að ná eðlilegum bata eftir kynferðisbrot. Það er ekki sjá að þessi gögn hafi verið virt viðlits við dómsgerð, enda ekkert vísað í þau í dómsorði.

Í stuttu máli er ákærði sýknaður af því að: Þolandi er ósannfærandi. Að sögn ákærða er hún bæði sterk, og þar með árás ómöguleg,  og svo stundar hún X svo hver veit hvaðan áverkarnir eru. Þá eru öll vitni ómarktæk og metið óþarft að velta neitt fyrir sér sálfræðilegum vitnisburðum.

Í hugmyndakerfi, eins og okkar, þar sem karlar telja sig hafa leynt og ljóst tilkall til umhyggju, hlustunar, tíma, pláss, hugsunar, vinnu og líkama kvenna er auðvitað dálítið teygjanlegt þetta með ásetning um nauðgun. En oft eru líka önnur sönnunargögn. Hins vegar er langt í land með að þau sönnunargögn séu virt fyrir það sem þau eru og dæmt sé út frá skilningi á glæpnum og mannlegu eðli. Þessu þurfum við að breyta, t.d. er knýjandi þörf á því að dómarar sitji námskeið í kvennarétti og kynjafræði, fái fræðslu um viðbrögð við áföllum og áfallastreitu og svo að greiningar á brotalömunum í kerfinu séu teknar alvarlega. Eða finnst okkur í alvöru eðlilegt að konur (og allir þolendur sem og mögulega verðandi þolendur) fái þau skilaboð trekk í trekk frá dómskerfinu að það megi bara nauðga þeim?

Athugasemd:

Dóm Héraðsdóms Suðurlands er ekki að finna á heimasíðu dómstólsins en er birtur í heild í dómi Landsréttar. Varað er við lýsingum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×